fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Eyjan

Brynjar atast í Pírötum: „Öfugt við marga aðra stjórnmálamenn held ég því ekki fram að ég sé siðlegri en hinir“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 14. júní 2018 16:00

Brynjar Níelsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Brynjari Níelssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, er tíðrætt um Pírata þessa dagana. Orð þingmannsins um iðjuleysi var beint í áttina að Pírötum, sem lögðu fram þingsályktunartillögu um borgaralaun, þvert á geð Brynjars, sem sakaði þá um að þykja dugnað vera ofmetinn, með vísun í eldhúsdagsræðu Smára McCarthy.

Þá sagði hann hóp þingmanna áberandi sem teldi sig sérstakt baráttufólk gegn bættum vinnubrögðum og aukinni virðingu alþingis, sem ættu það sameiginlegt að hafa varla unnið ærlegt handtak um ævina og augljóst hverjum sú sneið var ætluð.

Brynjar bætir við í dag að þessi orð hans hafi verið þess valdandi að sumir hafi lent í öngstræti í umræðunni og tilfinningarnar borið aðra ofurliði:

„Lýsing mín hér á fésbókinni á stjórnmálamönnum sem væru hvað uppteknastir við að siðvæða okkur hin og auka virðingu þingsins varð tilefni skemmtilegrar umræðu. Sumir lenda í öngstræti í umræðunni og tilfinningarnar bera þá ofurliði. Gripið er þá til þess ráðs að benda á að ég hafi í fyrri störfum gætt hagsmuna margra af verstu glæpamönnum landsins. Siðlausari gætu menn nú ekki orðið.“

Er þetta vísun í ummæli stjórnamálafræðingsins Viktors Orra Valgarðssonar, fyrrum varaþingmanns Pírata, sem sagði í athugasemdarkerfi Brynjars:

„Óskaplega geturðu verið hallærisleg steríótýpa af valdhyggnum hægripopúlísta, Brynjar minn. Auðvitað finnst þér mikilvægara að reka nefið upp í loft og tala um „ærleg handtök“ og „niðursetninga“ heldur en að reyna raunverulega að auka virðingu þingsins með því að stunda heiðarlegri vinnubrögð. Meðal annarra orða þá tel ég nokkuð fullvíst að Smári McCarthy hafi unnið umtalsvert fleiri „ærleg handtök“ á sinni ævi heldur en þú og að Björn Leví Gunnarsson hafi unnið samfélaginu umtalsvert meira gagn með störfum sínum fyrir skólakerfið heldur en þú hefur gert með því að verja alls konar siðleysingja gagnvart réttarkerfinu. En kannski voru siðleysingjarnir í skóm.“

Þarna vísar Viktor til þess þegar Brynjar talaði um Björn Leví Gunnarsson sem „niðursetning“ þar sem hann kýs að vera á sokkunum í sal Alþingis.

Brynjar sér ástæðu til þess að minna á að samkvæmt lögum beri lögmönnum að gæta hagsmuna sakaðra manna:

„Öfugt við marga aðra stjórnmálamenn held ég því ekki fram að ég sé siðlegri en hinir. En kannski vita ekki allir að lögmönnum er skylt lögum samkvæmt að verja sakaða menn sem þess óska og gæta hagsmuna þeirra í hvívetna. Mér sýnist að flestir hinna sjálfskipuðu mannréttindafrömuða þessa lands viti þetta ekki. Þeir virðast halda að mannréttindi snúist aðallega um að geta lufsast í iðjuleysi á kostnað annarra.“

Brynjar er þekktur fyrir að segja skoðanir sínar umbúðalaust og virðist alltaf ná að hrista vel upp í umræðunni með nálgun sinni. Hann er þó ekki allra, líkt og athugasemdarkerfi hans ber til kynna.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Segir kjósendur bera ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa

Segir kjósendur bera ábyrgð á þeim stjórnmálamönnum sem þeir kjósa
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra

Ólafur Þ. Harðarson: Afleiðing forsetaframboðs Katrínar er að Bjarni Ben er orðinn forsætisráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum