„Ég er búinn að vera reiður svo lengi, en með þessum dómi get ég vonandi lagt þetta frá mér. Áður en ég geri það þá finnst mér allt í lagi að vekja athygli á því óréttlæti sem mér finnst faðir minn hafa verið beittur,“ segir Ólafur Hlynur Guðmarsson en aldraður faðir hans, Guðmar Guðjónsson varð fyrir hrottalegri líkamsárás af hálfu nágranna síns, Jón Bachmanns Viggósonar, í mars 2016. Við barsmíðarnar hlaut Guðmar meðal annars mar á heila sem átti eftir að hafa miklar og alvarlegar afleiðingar á heilsu hans. Guðmar lést í júlí í fyrra en dómurinn sem Jón hlaut í desember sama ár hljóðaði upp á þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og miskabætur að upphæð 900 þúsund krónur. Landsréttur staðfesti dóm Héraðsdóms síðastliðinn föstudag en upphæð miskabóta var þá lækkuð niður í 300 þúsund krónur.
Fram kemur í dómnum að laugardagskvöldið 19. mars 2016, hafi Jón ruðst í heimildarleysi inn á heimili Guðmars og ráðist á hann, hrint honum í gólfið og sest ofan á brjóst hans. Þá hafi hann tekið um axlir hans og hrist hann fram og til baka svo að höfuð hans skall í gólfið, með þeim afleiðingum að Guðmar hlaut rifbrot, tognun og ofreynslu á axlarlið og opið sár á höfði.
„Það væri virkilega gaman að heyra af hverju smá peningar eru settir framar mannlega þættinum,“ segir Ólafur í samtali við DV um málið.
„Faðir minn og Jón bjuggu báðir í íbúðum á vegum Búseta í sömu blokk. Faðir minn á annarri hæð en Jón á þeirri fyrstu og fyrir framan lyftuna sem maður þurfti að fara í til að komast út. Lítil samskipti höfðu verið á milli Jóns og föður míns en Jón sagði að hann hefði heilsað föður mínum sem ekki hefði svarað honum og var það ástæða heimsóknar Jóns að hans sögn. Faðir minn var heyrnaskertur á báðum eyrum og því ekki ólíklegt að hann hefði nú ekki heyrt í honum ef hann reyndi þá að heilsa honum á ganginum.“
Börn Guðmars eru þrjú, en bróðir Ólafs býr erlendis og systir hans býr á landsbyggðinni. Ólafur var staddur erlendis þegar árásin átti sér stað en þeir feðgar voru í daglegum samskiptum. Ólafur frétti þó ekki af árásinni fyrr en tveimur dögum síðar.
„Eitt laugardagskvöld í mars 2016 bankaði Jón upp á hjá 79 ára gömlum manni. Hann var málaður í framan og seildist í veski þessa aldraða manns. Þessi aldraði maður var faðir minn og þar sem að hann átti það til að finna ekki símann sinn þá var hann nú með símann í ól utan um hálsinn
Þegar faðir minn reyndi að ýta Jóni út og loka hurðinni þá réðst Jón á hann með höggum og féll faðir minn aftur fyrir sig. Það varð honum til happs að hann náði í símann og hringdi á 112 en Neyðarlínan hlustaði á Jón ganga í skrokk á föður mínum þangað til að hann missti meðvitund. Jón náði aldrei veskinu af föður mínum en hann var handtekinn á staðnum.“
Ólafur segir föður sinn hafa farið illa út úr þessari líkamsárás og innilokast inni í íbúð sinni þar sem að hann þorði ekki að mæta Jóni á göngunum.
„Það gerðist líka nokkrum sinnum að það var dinglað og bankað hjá honum eftir þessa árás og þorði hann ekki fyrir sitt litla líf að fara til dyra þannig að ekki vitum við hvort þar var Jón að verki til kannski að klára verkið.“
„Ég hafði samband við Gísla framkvæmdarstjóra Búseta sem hafði reyndar heyrt af málinu og spurði hvort þeir ætluðu ekki að vísa Jóni út úr íbúðinni en Gísli neitaði því og sagði að enginn væri sekur fyrr en sekt væri sönnuð þótt Jón hefði verið handtekinn á staðnum. Eftir nokkra umræðu við hann óskaði ég þá eftir að faðir minn yrði færður í aðra íbúð. Því neitaði Gísli líka og sagði að faðir minn gæti ekki farið í aðra íbúð á vegum Búseta nema að greiða mun hærri greiðslu í búseturéttinn og hærri leigu á mánuði.“
Ólafur segir föður sinn hafa verið afar heilsuhraustan miðað við aldur en eftir árásina breyttist allt.
„Faðir minn hafði aðstoðað mig í lok ársins 2015 við að byggja bústað og var nokkuð heilsuhraustur miðað við 79 ára gamlan mann. Hann átti sinn jeppling og fór í jeppaferðir, gönguferðir og ljósmyndaferðir. Við barsmíðarnar fékk hann hins vegar mar á heila sem orsakaði það að nýrun fóru að starfa óeðlilega. Líkaminn fór að safna upp vatni og fékk hann aðsvif af og til og missti því bílprófið. Þar sem að hann hafði ekki átt við nein vandamál að stríða fyrir líkamsárásina var hann ekki framarlega á lista til að komast inn í íbúðir hjá Reykjavíkurborg.“
Ólafur flutti inn í stóra íbúð í byrjun ársins 2017 og lá þá beinast við að faðir hans myndi flytja inn til hans.
„Ég tók þá faðir minn strax til mín og bjó hann hjá mér í nokkra mánuði. Ég sagði upp samningum hans við Búseta og leyfði Gísli nú honum að sleppa með uppsagnarfrest þar sem að hann sá nú örugglega fram á að geta leigt íbúðina út á hærra verði enda hafði faðir minn verið í henni í 10 til 15 ár.“
„Bæturnar sem Jón á að greiða föður mínum voru lækkaðar úr 900 þúsund krónum í 300 þúsund en það skiptir svo sem ekki öllu máli þar sem faðir minn kemur ekki til með að njóta þeirra þar sem að hann lést í júlí 2017, 4 dögum áður en dóttir mín varð 1 árs. Bæturnar höfðum við systkinin talað um að nota í legstein en það er hæpið núna að það hafist. Fólk getur svo lagt það fyrir sig sjálft hvort að þessi dómur sé of mildur miðað við það að faðir minn er dáinn.“
Ólafur kveðst ekki vita betur en að Jón búi ennþá í Búseta íbúðinni.
„Gísli framkvæmdarstjóri Búseta var settur af og er kominn nýr maður í brúnna af því sem ég best veit en með því þá að í allra versta lagi leyfa föður mínum að fara í aðra íbúð á þeirra vegum á sínum tíma.
Þegar ég var að tæma íbúðina hans föður míns þá skildu nágrannar ekkert í því að Jóni hefði ekki verið vísað út þar sem að hann hefði nú átt einhverja sögu í húsinu. Af því sem ég heyrði þá hafði hann tekið öll blóm úr blómapottum og skrúfað alla ofna af veggnum til að finna hlerunarbúnaðinn sem væri notaður til að fylgjast með honum.
Skömmina fær Jón, Búseti og dómsstólar sem segja að ef þú lemur mann það illa að það stytti lífið hans þá er bara aðeins slegið á fingurna.“