fbpx
Miðvikudagur 16.júlí 2025
Eyjan

Magnús Þór neitar að hafa beitt Ragnheiði ofbeldi: „Ég er tekinn og krossfestur“ – Ragnheiður: Kvennaathvarfið hjálpaði

Eyjan
Föstudaginn 13. október 2017 23:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mín saga er sú, að í gærmorgun er ég á netinu og opna blöðin og er að lesa Akureyri vikublað og þar er viðtal við mína fyrrverandi sambýliskonu. Og þar koma fram fullyrðingar hjá henni um það að hún hafi búið við ofbeldi og verið í ofbeldissambandi um árabil og meðal annars leitað til Kvennaathvarfsins. Ég átta mig náttúrulega strax á því að hér er verið að tala um mig eða samband okkar.“

Þetta sagði Magnús Þór Hafsteinsson oddviti Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi í Síðdegisútvarpinu á Útvarpi Sögu í dag. Var hann þar að ræða netníð, sagðist verða fyrir ómaklegum árásum vísaði hann í viðtal í Akureyri Vikublaði við Ragnheiði Runólfsdóttur fyrrverandi sambýliskonu sína. Magnús og Ragnheiður sem í mörg ár okkar fremsta sundkona eignuðust tvö börn saman. Í viðtalinu sagði Ragnheiður að hún hefði verið í ofbeldissambandi og hafi þurft að leita til Kvennaathvarfsins:

„Ég hafði spólað lengi í sama farinu og það hefur reynst mér erfitt að sætta mig við að ég hafi ekki farið strax. Ég vildi einfaldlega ekki trúa að ég væri orðin þessi manneskja – kona sem þurfti að leita til Kvennaathvarfsins en það hjálpaði mér. Þar fékk ég leiðbeiningar; líflínu til að fara eftir. Ég var hætt að þekkja þessa konu sem ég var orðin. Ég, sem hafði alltaf verið „winner“ var orðin „loser“ og það var stór biti að kyngja,“

sagði Ragnheiður í viðtalinu. Þá sagði hún einnig á öðrum stað:

„Ég kann betur að meta lífið. Ég hafði bara fleytt rjómann ofan af, en þarna komst ég aðeins ofan í kaffikorginn. Þetta var erfitt tímabil en ég held að ég að ég hafi komið út sterkari þótt það hafi tekið sinn tíma. Ef ég horfi til baka sé ég viðvörunarbjöllurnar sem dingluðu, strax í upphafi og út sambandið, en ég hlustaði ekki á þær. Ég vildi ekki ganga aftur í gegnum skilnað og fannst ég þurfa að standa mína plikt; að ég ætti ekki að gera mikið úr þessu, standa mig, vinna, koma börnunum út í heiminn og vera ánægð með mitt. Ég hafði allt – góða vinnu, frábæra fjölskyldu, húsnæði og yndisleg börn og fannst að ég hlyti að geta verið ánægð. Ég taldi mér trú um að ég yrði að vera kyrr, en smám saman gerði ég mér grein fyrir að ég vildi það ekki og ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun. Það var margt sem ég hefði mátt gera öðruvísi í vanlíðaninni og ég tek fulla ábyrgð á því sem ég sagði og gerði, en að fara, það var rétt.“

Magnús segir að hann hafi orðið furðu lostinn við að lesa viðtalið. Þá kvaðst hann hafa tekið nærri sér og liðið illa yfir því sem hann hafði lesið. Segir hann að verið sé að hafa af honum æruna á ómaklegan og annarlegan hátt. Þvertók Magnús fyrir að hafa beitt Ragnheiði ofbeldi. Aðspurður hvort hann kannist við að sambýliskona sín hafi leitað til Kvennaathvarfsins segir Magnús:

„Nei, nei ekki á meðan við bjuggum saman. Alls ekki. Hafi hún gert það þá var það eftir að ég var gengin út af heimilinu og ég tel mig vita ástæður fyrir því að hún gerði það þá.“

Margir hafa deilt viðtalinu við Ragnheiði á samfélagsmiðlum og þar á meðal Sóley Tómasdóttir fyrrverandi forseti borgarstjórnar sem sagði:

Sóley Tómasdóttir

„Ein af fyrirmyndum minnar kynslóðar segir frá því sem á daga hennar hefur drifið. Sterk og mögnuð, þrátt fyrir ofbeldið sem hún hefur orðið fyrir. Fyrrverandi maðurinn hennar er aftur á móti á fullu í kosningabaráttu sem oddviti Flokks fólksins í NV-kjördæmi. Sennilega fullviss um að hann muni reynast verðugur til að gæta hagsmuna almennings.“

Magnús var ekki nafngreindur í viðtalinu en í þættinum var rætt hvernig það skipti ekki máli til lengri tíma litið þar sem blaðinu sé dreift um Norðurland og sé svo birt á vefnum þar sem því sé deilt á samfélagsmiðlum. Magnús er nú í kosningabaráttu og setur hann stórt spurningarmerki við tímasetningu viðtalsins, þar sem um sé að ræða samband sem lauk á erfiðan hátt fyrir tíu árum:

„Þetta kemur bara núna, maður spyr sig auðvitað afhverju kemur þetta núna á þessum tímapunkti? Af hverju kom þetta ekki í fyrra þegar ég leiddi lista þá? Þetta eru náttúrulega viðurstyggilegar alhæfingar af viðurstyggilegum verknaði sem ég bara kannast engan veginn við á neinn hátt. Ef um er að ræða líkamlegt ofbeldi þetta er eitthvað sem ég hef algeran ímugust á en þetta er sem sagt borið fram með þessum hætti og látið svona hanga í loftinu. Ég er ekki nafngreindur í þessu viðtali en þetta er svona látið hanga og ekki sagt neitt meira. En Indíana, ritstjórinn, hún kemur með þessar fullyrðingar það eru ekki til neinar skýrslur um nokkurn skapaðan hlut. Engar lögregluskýrslur, engar áverkaskýrslur, ekki neitt sem gæti staðfest þessa frásögn. Þetta er bara fullyrðing sem er sett fram og ég á bara að sitja uppi með hana í fanginu og það á bara að rústa mínu mannorði einn tveir og þrír og ég virðist ekki hafa neinn andmælarétt.“

Magnús kallar það mykjudreifingu þegar hann er nafngreindur í tengslum við fullyrðingar Ragnheiðar á samfélagsmiðlum:

„Eins og til dæmis hún Sóley Tómasdóttir frá Vinstri grænum. Allt þetta fólk hefur ekki kynnt sér málið á nein hátt og ég hef ekki fengið að koma mínu sjónarmiði fram á neinn hátt. Það er bara hrapað að ályktunum og ég er tekinn og krossfestur og reynt að hirða af mér mannorðið einn tveir og þrír. Svona virkar þetta. Í mínum huga eins og ég horfi á þetta núna að þá sýnist mér þetta vera úthugsuð atlaga að mannorði mínu og mér.“

Barst þá umræðan að fjölmiðlum, vill Magnús að Akureyri Vikublað biðjist afsökunar á að hafa birt viðtalið, hann ætlaði ekki að láta þetta yfir sig ganga. Fjölmiðlar geri kröfu um að stjórnmálamenn séu hreinskilnir og biðjist afsökunar ef þeir geri mistök þá ættu þeir að gera slíkt hið sama. Í þessu máli komi við sögu börn hans og Ragnheiðar, börn sem fái nú að lesa á níð á netinu og heyra kjaftasögur um föður sinn:

„Hvar eru mín mannréttindi í þessu máli? Hvar er mín friðhelgi? Er bara hægt að hrauna yfir mig og kasta hvaða skít sem er yfir mig? Bara af því að ég er stjórnmálamaður sem einhverjum hugnast ekki?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þingfundur hefst kl. 10 – Þrjú mál á dagskrá fyrir sumarfrí

Þingfundur hefst kl. 10 – Þrjú mál á dagskrá fyrir sumarfrí
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Björn Jón skrifar: Til varnar Íslandssögu Jónasar frá Hriflu

Björn Jón skrifar: Til varnar Íslandssögu Jónasar frá Hriflu
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Sigurður Hólmar skrifar: Réttindabrot gegn fötluðum og öldruðum einstaklingum

Sigurður Hólmar skrifar: Réttindabrot gegn fötluðum og öldruðum einstaklingum
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Stalín er ekki lengur hér

Óttar Guðmundsson skrifar: Stalín er ekki lengur hér
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Kjarnorkuákvæðinu beitt

Kjarnorkuákvæðinu beitt
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Jón Gnarr telur sig vita hvað vakir fyrir stjórnarandstöðunni í „lengsta eftirpartý Íslandssögunnar“

Jón Gnarr telur sig vita hvað vakir fyrir stjórnarandstöðunni í „lengsta eftirpartý Íslandssögunnar“