Samkvæmt þessari frétt hefur prestur í Arizona í Bandaríkjunum komist að því að asni hafi verið eins konar Cadillac í Gyðingalandi hinu forna.
Og því hafi Jósef og María alls ekki verið fátæk. Og ekki Jesú heldur.
Svo hafi þau fengið góðar gjafir frá vitringum sem fögnuðu fæðingu Jesúbarnsins – meira að segja gull. Það er ekki málmur fátæklinga.
Við höfum litla jötu hérna í stofunni, uppstillingu af fæðingu frelsarans, raunar með dálítið ofvöxnu barni. Upprunalega Jesúbarnið brotnaði af og ég útvegaði nýtt, sem er nokkrum númerum of stórt. Má segja að jatan hafi sinn karakter.
Áðan var Kári búinn að ná í vasaljósið sem hann fékk í jólagjöf frá afa sínum, lýsti inn í fjárhúsið og hélt einhvers konar helgileik.
Við heyrðum hann tísta fyrir fuglana, jarma fyrir lömbin. Svo upphófst nokkur hávaði.
Það voru vitringarnir að rífast um hvað væri flottast, gull, reykelsi eða mirra.