Kvikmyndin Avatar er sjónrænt meistaraverk. Ber þess vitni að ótrúlega mikið hafi verið nostrað við hvern ramma. James Cameron má eiga það að hann hugsar stórt og hefur breiða sýn. Stundum slær þetta reyndar aðeins of langt út í tölvuleik – það er ekki beint gaman að horfa á aðra spila tölvuleiki. En þótt mér líði alltaf svolítið kjánalega að sitja með þrívíddargleraugu í bíósal, þá gleymir maður sér við að horfa á dýrðina.
Ég veit ekki – kannski er framtíð kvikmyndanna þarna, eða einhver hluti hennar. Þetta er Hollywood eins og það verður stærst og stórkostlegast; maður getur ekki annað en dáðst að kraftinum og framkvæmdagleðinni.
Meistari Tuffaut á þó fræga línu – að gæði kvikmyndar séu ekki endilega í samræmi við fyrirhöfnina sem fara í að gera hana. Ég ætla ekki að afskrifa myndir eins og Mömmu Gógó strax.
Sagan er einföld, með góðum boðskap um náttúruvernd, rányrkju, nýlendukúgun og baráttu fyrir frelsi. Að sumu leyti minnir þetta á vestra, frumbyggjar plánetunnar Pandóru líkjast indíánum – það er þá eins myndir frá síðasta skeiði vestrans þegar indiánarnir voru góðir en riddaraliðið vont.
Og þetta er saga sem er ennþá að gerast: Í Tíbet, á Vesturbakkanum, í Súdan.
Persónurnar eru kannski ekki ýkja spennandi en leiktjöldin eru það; þessi pláneta sem Cameron var mörg ár að skapa – fyrir 250 milljón dollara.