Ég hef reynt að taka verulega til í athugasemdakerfinu hér á vefnum. Vinsa út ritsóða, nettröll, þá sem eru augljóslega haldnir þráhyggjum, þá sem reyna að rugla umræðuna, þá sem skrifa undir mörgum netföngum. Útiloka sumar IP-tölur. Vera á varðbergi gagnvart öðrum sem missa sig stundum, en eru oft í lagi. Þetta er leiðinlegt verkefni – og oft velti ég fyrir mér hvort er nokkur ástæða til að halda þessum vettvangi opnum.
En stundum er umræðan reyndar ágæt, ég held hún hafi batnað eftir þessa tiltekt.
Það kemur þó fyrir að maður verður gáttaður. Ég googlaði einn sem hefur beitt sér talsvert á síðunni og verið mjög stóryrtur. Komst á síðu hans þar sem hann hafði fótósjoppað andlitið á sér inn á mynd af þekktum nasista – sirka árið 1940.
Ég ætla að ákveða um áramótin hvort ég nenni að halda þessu spjallsvæði opnu.