Þegar skoðaðar eru athugsasemdir frá Ingibjörgu Sólrúnu – eða Geir Haarde – um atburði fyrir hrun og á tíma þess verður að gá að einu.
Nefnilega því að pólitísk arfleifð þeirra er í tætlum. Henni verður varla tjaslað saman aftur; það er lítil von til þess að þau komist aftur inn í pólitík eða í sérstakar ábyrgðarstöður.
Það voru Ingibjörg og Geir sem fóru um heiminn stuttu fyrir hrun og reyndu að halda því fram að allt væri í þessu fína í íslensku bönkunum. Þeir hefðu bara ekki nógu góða ímynd.
Ein síðasta von þeirra er að reyna að hanga í því að vondir útlendingar hafi valdið ógæfu Íslands.
Þar eru þau reyndar dálítið á sama báti og annar stjórnmálamaður með ónýta arfleifð – Davíð Oddsson. Þetta er líka rauður þráður í málflutningi hans – og vinar hans, Styrmis Gunnarssonar.
Þessir fyrrum leiðtogar þjóðarinnar – sem öllum var sópað burt eftir búsáhaldabyltinguna – eiga allt undir því að geta kennt öðrum um.
Í því felst veik von þeirra um uppreisn æru.
Fyrrverandi seðlabankastjórinn og forsætisráðherrann hefur reyndar fengið heilt dagblað til þess, fyrrum virtasta blað landsins. Það getur varla talist annað en harmskoplegt.