Baldur Guðlaugsson skrifar grein í Morgunblaðið í dag, sjálfum sér til varnar. Að mati ritstjórnar blaðsins er hann af því kalíberi að hann fær birtar greinar á leiðaraopnunni.
Í greininni er merkileg málsgrein, og nokkuð afhjúpandi.
Hún fjallar um setu Baldurs, þáverandi ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins, í samráðshópi ráðuneyta, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans. Þessi nefnd fundaði 31. júlí 2008. Orð Baldurs sýna í hvílík vandræði stofnanir sem áttu að hafa eftirlit með íslenska fjármálakerfinu voru komnar:
“Í fundargerð þessa fundar samráðshópsins kemur fram að ég hafi sagt að ég teldi að það gæti orðið banabiti fyrir bankana ef umræðan færi af stað um veikleika Tryggingasjóðsins. Þar var ég að sjálfsögðu að vísa til þeirrar opinberu umfjöllunar sem átt hafði sér stað í Bretlandi nokkru áður og hafði þá leitt til nokkurs útflæðis af innlánsreikningum Landsbankans. Var augljóst að það hefði getað valdið áhlaupi breskra innstæðueigenda ef endurnýjuð og aukin umræða hefði farið af stað um að mikill vafi léki á því að hægt yrði að standa undir innstæðutryggingunum.”