Nú þegar sveitarfélög um allt land eru á hvínandi kúpunni hljóta menn að reyna að leita nýrra leiða til að ráða málum á þessu stjórnsýslustigi.
Á höfuðbogarsvæðinu svokallaða búa um 180 þúsund manns. Þetta er þéttbýlasta svæði landsins. Samt er þetta enginn óskaplegur fjöldi.
En á þessu svæði eru sjö sveitarfélög. Ég endurtek: sjö.
Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær, Seltjarnarnes, Mosfellsbær og Álftanes.
Sjö bæjarstjórar, sjö bæjarstjórnir, sjö bæjarkerfi.
Álftanes er komið í þrot, sum önnur sveitarfélögin eru verulega illa stödd.
Það er talað um að Álftanes muni vilja sameignast Reykjavík – ég þekki ekki pólitíkina þar nógu vel til að skilja hvers vegna ekki er vilji til að sameinast Garðabæ eða Hafnarfirði sem þó liggja við hliðina á Álftanesi.
Út úr þessum fjölda sveitarfélaga á þessum litla bletti hefur lítið komið annað en vont skipulag, fáránlega dreifð byggð, margfalt stjórnkerfi, fjáraustur og óhagkvæmni.
Í síðasta góðæri fríkuðu sum sveitarfélögin út. Kópavogur kláraði allt byggingaland sitt, í Hafnarfirði standa heilu hverfin auð. Í Reykjavík var hita- og rafmangnsveitan skuldsett til andskotans, á Álftanesi var byggð ein fínasta sundlaug landsins.
Það var látið eins og það væri sérlega mikilvægt að í öllum þessum sveitarfélögum væru bullandi framkvæmdir, að þau ættu að standa í harðri samkeppni um að fjölga íbúum.
Að lokum: Íbúar Álftaness verða sjálfsagt skelkaðir, en ég hef verið hallur undir hugmyndir um að byggja brú yfir Skerjafjörðinn þannig að hægt sé að komast á fimm mínútum þaðan inn í Reykjavík. Svo væri þjóðráð taka hið feikistóra Bessastaðanes og leggja flugvöll þar.
Þess má geta að Ómar Ragnarsson lagði eitt sinn fram tillögur um flugvöll á nesinu – sem væri þó ekki nær setri forseta Íslands en Hótel Saga er frá Reykjavíkurflugvelli.