David Attenborough er nú kominn með þætti um skordýr.
Ég á mjög erfitt með að horfa á þættina hans, þetta byrjar oft frekar vel, dýrin eru sæt og smúmíleg, en svo veit maður ekki fyrr en þau eru farin að éta hvert annað.
Einu sinni varð ég brjálaður yfir atriði í þætti eftir Attenborough. Það var þegar hjörð af háhyrningum var að elta hvalkú og kálfinn hennar til að reyna að skilja þau að; tókst náttúrlega að lokum og svo átu þeir litla hvalinn.
Þetta var stuttu eftir að ég eignaðist Kára; það var líklega tengt hormónastarfseminni að ég varð svona æstur yfir þessu atriði.
En svona nákvæmnislegir þættir um skordýr eru ekki algjört nýnæmi.
Þegar ég var tólf ára var sýnd í Reykjavík mynd sem kallaðist The Hellstrom Chronicle. Þetta var heimildarmynd, en meginþema hennar var samt að skordýrin væru smátt og smátt að leggja undir sig heiminn. Mannkynið væri raun glatað – það hefði ekki roð í þessa óvini sína. Myndin var full af ógeðslegum nærmyndum af skordýrum.
Þetta var mjög umtöluð mynd, og ég man raunar ekki betur en að farið hafi verið með okkur börn úr Melaskóla eða Hagaskóla til að sjá hana í Nýja bíói.
Kári er að horfa á Attenborough.
Ég heyri hann segja vantrúaðan inni í stofu: Neiii.
Það var verið að éta mömmuna.
Og svo versnar í því.
Skordýrabörnin finna sér nýja mömmu – og éta hana sjálf.
Það er síðasta máltíðin áður en þau halda út í heiminn.
Annars sýna dýralífsmyndir aðallega tvennt, enda ekki mörgu öðru til að dreifa: Tímgun og fæðuöflum.
Við mennirnir kæmum kannski ekki sérlega vel út úr því ef sjónum væri beint að þessum hliðum í fari okkar.
Eintómar ríðingar – og svo sýnt inn í sláturhús þar sem er verið að drepa kjúklinga og nautgripi.
Þökkum guði fyrir menninguna sem dreifir huga okkar aðeins frá þessu.