Nú er komið fram að Steingrímur J.Sigfússon talaði ekki um að „sefa reiði almennings“, heldur lá þetta í spurningu sem blaðamaður beindi til hans.
Þá þyrfti maður eiginlega að vita hvaðan þessi frétt er komin – hverjir „túlkuðu“ orð Steingríms svo frjálslega?
Að því sögðu er auðvitað réttast að ráðherrar eins og Steingrímur og Jóhanna segi sem minnst um þessar handtökur.
Á vef Pressunnar raða þeir sér upp pennar sem lýsa því hversu hræðilegt sé að glæframenn úr bönkunum séu settir í gæsluvarðhald.
Í fréttadálki þessa fjölmiðils hefur síðasta sólarhringinn birst fjöldi frétta um hversu vafasöm þessi aðgerð sé og hversu hræðilegt það sé að lenda í gæsluvarðhaldi.
Reyndar stemmir margt við það sem Eva Joly sagði að myndi fara í gang þegar handtökur hefjast. Banksterarnir eiga enn þá volduga bandamenn – og það vekur upp óþægilegar kenndir hjá að sjá snyrtilega heimilisfeður í jakkafötum leidda burt í lögreglufylgd.
Menn eru ansi brattir að fullyrða að gæsluvarðhaldið hljóti að vera tilefnislaust. Eitt er að sakarefnin gætu verið býsna stór, þá erum við að tala um fjársvik sem nema hundruðum milljarða króna. Og hitt er að fyrir gæsluvarðhaldinu geta reynst ágæt rök eins og einn lesandi síðunnar skrifar:
„Ég efast um að dómari hafi fallist á gæsluvarðhald í þeim eina tilgangi að koma í veg fyrir að gögnum verði eytt, til þess hafa þessir menn haft nægan tíma til fram að þessu.
Það sem menn verða átta sig á að þegar flókin mál hafa verið til rannsóknar í langan tíma þá getur það skipt máli hvernig sakarefnið er síðan borið undir sakborninga við skýrslutökur og hvað nákvæmlega er verið að saka þá um. Gæsluvarðhald getur þá t.d. verið nauðsynlegt til þess að þeir sakborningar hafi ekki tækifæri til að samræma framburð sinn eftir að þeir vita nákvæmlega hvert sakarefnið er. Þess vegna hafa þeir væntanlega verið boðaðir í yfrheyrslu fyrst og síðan settir í gæsluvarðhald eftir skýrslutökur og eftir að sakarefnið var borið undir þá svo þeir gætu ekki sammælst eftir skýrslutökuna.
Þá er einnig sá möguleiki til staðar að það hafi verið skorað á þá í skýrslutökum að leggja fram ákveðinn gögn sem sérstaki saksóknarinn veit að eru til staðar en þeir hafi ekki viljað og þá getur sérstaki saksóknarinn nýtt tíman núna til að nálgast þessi nauðsynlegu gögn.
Allt þetta geta verið rannsóknarhagsmunir sem myndast við það að sakarefni er borið undir sakborninga og fer eftir svörum þeirra við skýrslutökurnar til hvaða þvingunarúrræða er nauðsynlegt að grípa til.
Síðan skulum við ekki gleyma því að Ólafur Hauksson hefur þurft að færa rök fyrir því að rannsóknarhagsmunir séu til staðar í málinu og héraðsdómarinn virðist hafa verið sammála því og því skulu menn fara varlega með fullyrðingar og upphrópanir þangað til við vitum á hvaða grundvelli þessir menn voru settir í gæsluvarðhald.“
Annars kemur til kasta Hæstaréttar á mánudag – sjáum til hvernig fer þá.