Það er mikið talað um verkföll og átök í Grikklandi.
Staðreyndin er samt sú að þetta er miklu minna en má lesa út úr heimspressunni. Það er engin bylting í gangi í Grikklandi, jafnvel ekki þótt íslenskir róttæklingar efni til mótmæla vegna Grikklands við skrifstofu AGS í Reykjavík.
Verkföll eru mjög algeng í Grikklandi – og mótmæli hafa fjarri því verið jafn kröftug og mætti halda af dramatískum myndum. Þetta er til dæmis miklu minna en þegar voru mikil uppþot á götum Aþenu í desember 2008.
Í Grikklandi er talsverður fjöldi fólks sem elskar að slást við lögregluna. Það er nánast árlegur viðburður að komi til slíkra átaka, og stundum geta þau orðið blóðug. Í hittifyrra var barist dag eftir dag í kringum háskólann í Aþenu. Þeir sem ganga harðast fram í slíkum mótmælum eru eins konar atvinnumótmælendur – ungt fólk sem hefur litla hugsjón aðra en að æsa til átaka, líkt og fótboltabullur.
Nú er búið að samþykkja björgunarpakka ESB og AGS fyrir Grikkland. Flestir Grikkir gera sér grein fyrir að nauðsynlegt er að taka rækilega til í stjórnmála- og hagkerfinu. Grikkir þurfa að læra að borga skatta, það þarf að taka á landlægri spillingu í stjórnmálum, lélegu emættismannakerfi – og það gengur ekki að falsa hagtölur. Meirihluti Grikkja veit að þetta verður sársaukafullt. Landið er einfaldlega gjaldþrota. Það reynir verulega á núverandi stjórnvöld að gera alvöru hreingerningu í kerfinu.
Hættan er samt sú, eins og Joseph Stiglitz bendir á, að sparnaðaraðgerðirnar sem fylgja björgunarpakkanum séu of harkalegar; að þær komi í veg fyrir að hagkerfið nái sér aftur á strik. Stiglitz varaði líka við þessu á Íslandi. Það hefði verið betra ef Evrópusambandið og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefðu gripið fyrr inn í. Og eins og endranær er hætta á að yfirstéttin sem auðgaðist mjög á uppgangstímanum í Grikklandi á síðasta áratug – sem byggði svo mjög á lánsfé – bjargi sjálfri sér meðan launþegar og almennir borgarar sitja eftir í skuldasúpunni.
Í svona stöðu eru allir kostir vondir. Mikill stjórnmálalegur órói í landinu getur haft alvarlegar afleiðingar. Það eru ekki nema 35 ár síðan tímabili Miðjarðarhafsfasismans lauk með falli herforingjastjórnarinnar í Grikklandi og Francostjórnarinnar á Spáni. Það eru meðal annars kommúnistar sem kynda undir ófriði í Grikklandi. KKE heitir stærsti flokkur þeirra og skartar rauðum fána með hamri og sigð; eftir heimstyrjöldina áttu kommúnistar í blóðugu borgarastríði í Grikklandi þar sem tugir þúsunda misstu lífið. Upplausnarástand myndi líka kalla á hörð viðbrögð frá ysta hægrinu – það er skelfileg tilhugsun hvað gæti gerst ef slík átök færu úr böndunum. Síðast endaði það í sjö ára herforingjastjórn, pólitískum fangelsunum og morðum.
Verkföll geta líka reynst í meira lagi skaðleg. Grikkir eru mjög háðir ferðamannaiðnaðinum. Ferðamenn sem frétta af verkföllum eru líklegir til að fara annað. Í nágrenninu er Tyrkland, þar sem verkföll eru sjaldgæf og verðlag er betra en í Grikklandi. Þar reynist evran Grikkjum fjötur um fót – þeir geta ekki lækkað gengið til að auka samkeppnishæfni sína. Hugsanlega hefur Angela Merkel rétt fyrir sér þegar hún segir að það hafi verið mistök að hleypa Grikkjum í evruna. Um það þýðir þó varla að fást núna – yfirleitt er ekki talið raunsætt að Grikkir kveðji evruna á þessum tímapunkti.
Kit Cristopher bendir á það í grein á vef Guardian að Grikkir séu svartsýnasta fólk í Evrópu – þetta má lesa í frétt í Kathimerini, stærsta dagblaði Grikklands. Þeir búa í fallegu landi, undir dásamlegri sól, borða góðan mat, ferðamenn flykkjast þangað til að njóta lífsgæðanna – en Grikkir hafa litla trú á stjórnmálum eða stjórnmálamönnum. Þeir hafa gengið út frá því sem vísu að kerfið sé allt rotið og að það sé nokkurs konar lögmál. Á sama tíma líta þeir á sig sem einstaklega frjálsborna menn sem þurfi ekki endilega að beygja sig undir ok eins og borga skatta.
En það er nákvæmlega þetta fatalíska viðhorf til tilverunnar sem þarf að breytast ef Grikkir ætla að eiga sér viðreisnar von.
Hamar og sigð: Borðar frá KKE, gríska kommúnistaflokknum, á Acropolishæð.