Um daginn skrifaði ég að ég teldi að fyrirsögnin á forsíðu Moggans daginn eftir að skýrsla rannsóknarnefndar kom út hefði í raun verið samin áður en skýrslan birtist.
Ég viðukenni að ég byggði þetta á tilfinningu, því sem kallast gut feeling, eftir áratuga starf í blaðamennsku.
Nú er komið á daginn að þetta var rétt. Blaðamaður á Morgunblaðinu segir upp starfi sínu vegna ágreinings á ritstjórninni um forsíðu þessa tölublaðs.
Fimmdálka fyrirsögnin var svohljóðandi:
Ábyrgðin er bankanna!
Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, blaðakonan sem sagði upp, segir um annan ritstjóra Morgunblaðsins:
„Hins vegar skildi ég ekki ástæður þess að hann vildi ekki fjalla með ítarlegri hætti um vanræslu stjórnmála- og embættismanna á forsíðunni en ákvað að lúta því. Það fauk í mig þegar aðstoðarritstjóri og yfirmaður menningarmála komu og reyndu að sannfæra mig um að ákvörðun Haraldar og fréttamat væri rétt.“
Annars virkar eignarhaldið á stóru blöðunum hér sífellt ankanalegra – ekki síst eftir birtingu skýrslunnar miklu – þau eru í eigu fámennra en harðsvíraðra hagsmunahópa, sem er algjörlega á skjön við kröfur um gegnsæi og lýðræði sem eru uppi í samfélaginu.