fbpx
Mánudagur 11.ágúst 2025
Eyjan

Uppgjör í lífeyrissjóðunum

Egill Helgason
Miðvikudaginn 21. apríl 2010 08:28

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú beinast augu að lífeyrissjóðunum, ekki bara vegna þess sem stendur í skýrslu rannsóknarnefndar þingsins, heldur líka vegna þess að verið er að lækka greiðslur úr þeim í stórum stíl – um upphæðir sem lífeyrisþega sannarlega munar um. Skerðingin hjá Almenna lífeyrissjóðnum er 16,7 prósent, Gildi hefur lækkað útgreiðslur sínar tvívegis, um 6 prósent og 10 prósent.

Í stjórn Gildis sitja miklar silkihúfur úr Samtökum atvinnurekenda og verkalýðshreyfingunni:

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, tilnefndur af SA, formaður stjórnar.

Sigurður Bessason, formaður Eflingar, varaformaður stjórnar, kosinn á ársfundi.

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands ísl. útvegsmanna, tilnefndur af SA.

Guðmundur Ragnarsson, formaður VM, kosinn á ársfundi.

Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Eimskip, tilnefnd af SA.

Konráð Alfreðsson, formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar, kosinn á ársfundi.

Sigurrós Kristinsdóttir, 1. varaformaður Eflingar, kosin á ársfundi.

Sveinn Hannesson, framkvæmdastjóri Gámaþjónustunnar, tilnefndur af SA.

Lífeyrissjóðir settu reyndar sjálfir upp nefnd til að draga lærdóma af hruninu. Lífeyrissjóðirnir hafa verið ríki í ríkinu svo náttúrlega töldu stjórar þeirra sig best fallna til að dæma í eigin sök, því í nefndinni sátu:

Stefán Halldórsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga, formaður, Baldur Vilhjálmsson, forstöðumaður eignastýringar hjá Lífeyrissjóði  starfsmanna ríkisins, Helga Indriðadóttir,  sjóðsjóri hjá Almenna lífeyrissjóðnum, Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Stafa lífeyrissjóðs og Tryggvi Tryggvason, forstöðumaður eignastýringar hjá Gildi lífeyrissjóði. Með þeim starfaði Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.

Ekki eru þó allir ánægðir með lærdómana eða framgöngu lífeyrissjóðaaðalsins. Guðmundur Marteinsson, formaður Félags vélstjóra- og málmtæknimanna, skrifar harðorða grein um lífeyrissjóðina á vef félagsins. Þar segir meðal annars:

— — —

Ég mun hvetja til að við beitum okkur af hörku, gegn þeim sem unnið hafa fyrir okkur í sjóðunum, verði þeir uppvísir að því að hafa tekið þátt í sukkinu með elítunni í fjármálakerfinu. Nú erum við komin með verkfæri í hendurnar til að kanna hvað var í gangi og hver gerði hvað.
Það koma fram margar spurningar sem við þurfum að fá botn í vaðandi þau mál skýrslunnar sem snúa að lífeyrissjóðunum. Hvers vegna tóku sjóðirnir stöðu um að krónan myndi styrkjast eftir að allt tók að falla og settu gífurlega fjármuni í hættu við þann gjörning? Gjörning sem margir setja spurningamerki við hjá langtíma fjárfesti, sem ekki á að braska með skammtíma gróðasjónarmið.
Eigendur bankanna hefðu ekki getað tekið stöðu gegn krónunni nema þessir samningar væru til. Að sjóðstjóri Gildis skuli nafngreindur í skýrslunni sem þátttakandi í laxveiðiferðum í bókum Kaupþings, er að mínu viti ekki gert nema að þær séu það margar að skýrsluhöfundum hafi ofboðið og talið sig þurfa að hafa orð á því. Þetta verður að upplýsast og allt sem stjórnendur lífeyrissjóðanna hafa þegið af þeim sem þeir voru að fjárfesta með okkar peningum hjá.

Gildi fór illa út úr viðskiptum sínum við Kaupþing og var að taka þátt í fjárfestingum fram á það síðasta.
Ef þeir einstaklingar eru enn að starfa fyrir okkur og höfðu ekki dómgreind til að átta sig á því hvað þeir voru að gera með því að þiggja ýmiskonar ferðir frá fjármálafyrirtækjunum, ættu að hafa þá dómgreind að segja upp og ganga út. Þeir sem starfa við að byggja upp traust á þessum sjóðum aftur, geta ekki haft slíka aðila lengur í störfum, hafi þeir farið yfir mörkin sem við ætlum okkur að miða við. Við verðum að komast á hreint borð með öll álitamál sem koma í ljós, til að geta hafið uppbyggingu á traustum grunni þar sem engar vafaspurningar eru að flækjast fyrir okkur. Nú þýðir ekkert annað en að hafa uppi stór orð og standa við þau!

Það er annað sem vekur furðu mína og vekur upp spurningar um hæfni þeirra manna sem við höfum treyst fyrir þeim miklu fjármunum sem umbjóðendur okkar eiga í lífeyrissjóðakerfinu. Þetta voru jú sérfræðingarnir sem við réðum til að bera ábyrgð á þessu og þeir þurftu há laun vegna eigin mats á sinni snilli og færni.
Í nýrri skýrslu sem kom frá Landssamtökum lífeyrissjóða, um lærdóm lífeyrissjóða af hruninu 2008 til 2009, afhjúpa allavega þeir sem hana sömdu vanhæfni sína og dómgreindaleysi við að sinna þeim störfum sem þeir voru ráðnir til, auk þess að afhjúpa hjarðhegðunina sem virðist hafa ríkt meðal þessa hóps.
Þeir voru ekki lengi að setja á blað hvað eigi að varast og vissulega eru það góðar ábendingar til löggjafans að bæta eftirlits- og regluverkið. Auk þess að setja upp vinnureglur fyrir sjóðina gagnvart þeim sem fjárfest er hjá.
En ég spyr hvernig stóð á því að engin af þessum einstaklingum notaði eigin dómgreind og vann eftir öllu því sem ber að varast fyrst þeir vissu hvar hætturnar voru, til að koma í veg fyrir að verið væri að plata þá? Eða voru það bitlingarnir sem bankakerfið rétti að þeim sem urðu þess valdandi að þeir héldu blindir áfram?
Tilhugsunin um að missa spón úr aski sínum og verða af öllum laxveiðiferðunum og öðrum þeim bitlingum sem þeir höfðu notið var örugglega ekki góð.
Hvað var það sem varð þess valdandi að þeir héldu áfram að starfa á markaði sem þeir vissu að var gjörsamleg ónýtur og þurfti að varast, eins og kemur skýrt fram í skýrslu LL? Að mínu viti eru allavega þeir einstaklingar sem setja nafn sitt undir skýrsluna að viðurkenna að þeir hafi ekki verið að sinna störfum sínum af fullum heiðarleika og með hagsmuni sinna umbjóðenda að leiðarljósi og hafa ekki mitt traust lengur.
Allir verða að leggjast á eitt við að hreinsa til eftir upplýsingar skýrslunnar. Vissulega verðum við að draga línu og viðurkenna að ýmsir misstigu sig vegna tíðarandans í samfélaginu og hafa þroska til að áminna og bæta siða- og verklagsreglurnar. En þeir sem fóru yfir þau mörk sem við ætlum að draga, þar sem einstaklingar hafa gengið svo langt í að þiggja bitlinga, að hægt væri að flokka þá sem hreinar mútur, verða þeir einstaklingar að víkja.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir Sjálfstæðisflokk og Framsókn hafa gert andstöðu við atkvæðagreiðslur að sérstöku baráttumáli

Segir Sjálfstæðisflokk og Framsókn hafa gert andstöðu við atkvæðagreiðslur að sérstöku baráttumáli
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kolla hlustaði á tvo áhyggjufulla Sjálfstæðismenn tala um flokkinn sinn – „Voru þeir að gera nokkuð sem þeim féll greinilega þungt“

Kolla hlustaði á tvo áhyggjufulla Sjálfstæðismenn tala um flokkinn sinn – „Voru þeir að gera nokkuð sem þeim féll greinilega þungt“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Foringi herforingjastjórnarinnar hrósaði Trump sem aflétti þá refsiaðgerðum og tollum gagnvart landinu

Foringi herforingjastjórnarinnar hrósaði Trump sem aflétti þá refsiaðgerðum og tollum gagnvart landinu
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Er samtal svona hættulegt?

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Er samtal svona hættulegt?
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Keisarinn veginn á kamrinum

Björn Jón skrifar: Keisarinn veginn á kamrinum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum enn á móti litasjónvarpi

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum enn á móti litasjónvarpi