Sums staðar í kringum mig þar sem ég bý í Miðbænum eru „græn“ svæði.
Það er til dæmis reiturinn hérna á Amtmannsstígnum. Þar er gamall sandkassi sem kettir míga í. Enginn með réttu ráði myndi láta barn leika í þessum sandkassa. Annars er þessi reitur aðallega notaður af fólki af vinnustöðum í grendinni sem fer út til að reykja. Hann er alltaf fullur af sígarettustubbum og öðru drasli, við förum reyndar að með mikilli gát þarna – það gæti alltaf leynst sprautunál í gróðrinum. Stundum lætur fólk hunda skíta þarna.
Þarna eru líka leifar af gömlum brunni. Hann er notaður sem geymsla fyrir sorp – er yfirleitt fullur af alls kyns hrati borgarsamfélagsins.
Fyrir neðan er Bakarabrekkan svokölluð. Svæðið fyrir neðan Bernhöftstorfuna. Þar er hið úrsérgegngna útitafl – sem svosem var aldrei mikil bæjarprýði. Eða það stóð allavega ekki lengi áður en það fór að dabbast niður.
Þar eru líka grasblettir, en þeir eru dálítið háskalegir að því leyti að þeir eru fullir af glerbrotum. Glerbrotin eru orðin líkt og samofin við grassvörðinn. Hið sama gildir um grasreit sem var settur upp á Lækjartorgi í fyrrasumar. Hann er útbíaður í glerbrotum og sóðaskap ótal fyllerísnátta.
Allt er þetta í skelfilegri vanhirðu. Ég hef reyndar látið mér detta í hug að fá að stækka lóðina hjá mér svo litli almenningsbletturinn á Amtmannsstígnum heyri undir mig. Taka hann í fóstur. Ég gæti þá kannski fjarlægt sandkassann og reynt að fegra blettinn dálítið.
Mér gæti ekki tekist verr upp en borgaryfirvöldum.