Einn við núverandi stjórnskipan Íslands er að mótun forsetaembættisins er í raun í höndum sitjandi forseta. Reglurnar um það eru svo óljósar – og mismunandi hvernig forsetar hafa notað embætti sitt.
Ólafur Ragnar Grímsson tók sér það vald 2004 að „virkja“ synjunarvald forsetans. Það var þegar hann neitaði að skrifa undir fjölmiðlalögin umdeildu.
Um leið breyttist embættið frá því sem hafði verið frá lýðveldisstofunun. Enginn forseti hafði beitt þessu valdi áður, þeir voru sáttir við að þetta væri puntembætti líkt og hjá kóngafólkinu í Skandinavíu.
Þar myndi kóngi eða drottningu aldrei detta í hug að ganga gegn vilja þjóðþings – né heldur til dæmis Englandsdrottningu.
Nú ætla ég ekki að halda því fram að skilningur Ólafs Ragnars sé endilega rangur. Það er ljóst að synjunarvaldið verður bullandi virkt ef hann neitar líka að skrifa undir Icesave 2.
Í næstu kosningum hlýtur þetta að verða aðalspurningin til frambjóðenda: Muntu nota synjunarvaldið eða muntu ekki nota það?
Það má jafnvel ímynda sér að kjósendur skipist í fylkingar eftir þessu.
Það væri skrítið, eftir Ólaf Ragnar, að fá forseta sem hefði allt annan skilning á málinu – myndi lúta vilja þingsins eins og fyrri forsetar. Þannig yrði þetta svona hippsum happs, stundum hefðum við „virka“ forseta og stundum „óvirka“.
Við svo búið má auðvitað ekki sitja. Það verður að gera breytingar á stjórnarskrá sem taka af öll tvímæli um stjórnskipunina. Hvort sem vald forseta verður aukið eða takmarkað, þá er þessi óvissa út í hött.
Það má svo meta það við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, að hann er samkvæmur sjálfum sér í þessu máli. Það hefur verið ríkjandi viðhorf í Sjálfstæðisflokknum að forsetinn eigi ekki að nota réttinn til að neita að undirrita lög. Þingið skuli ráða. Bjarni segir að hann sé ennþá sömu skoðunar – Icesave breyti engu þar um.
Sjálfur taldi ég á tíma fjölmiðlamálsins að það væri mjög varasamt fyrir Ólaf að beita synjunarvaldinu, líkt og hann gerði. Ég áleit lagasetninguna vonda en að forsetanum væri ekki stætt að stöðva hana. Nú er líka komið ljós að fordæmið sem þá var sett er mjög vandmeðfarið – rökstuðningurinn um „gjá milli þings og þjóðar“ sem hann notaði þá hlýtur að eiga enn betur við nú en þá?