Gunnar Tómasson hagfræðingur sendi þessa athugasemd.
— — —
Krónan er hvorki betri né verri en hver annar gjaldmiðill – hún er hugtak en ekki hlutur sem endurspeglast að langstærstum hluta í innistæðum í bankakerfinu sem verða til úr engu líkt og færslur í bókhaldskerfi.
Krónur verða til við “kaup” banka á skuldaviðurkenningum lántakenda sem fá andvirði þeirra yfirfært á bankareikinga sína með tölvufærslu.
Krónan er einkum frábrugðin matadorpeningum í því einu að hún er lögboðinn gjaldmiðill í viðskiptum innanlands og til kaupa á gjaldeyri.
Útrásin var “fjámögnuð” með “kaupum” bankanna á skuldaviðurkenningum sem lántakendur notuðu til að kaupa gjaldeyri sem síðan var notaður til að kaupa erlendar eignir – gjaldeyri sem bankarnir tóku að láni erlendis.
Ef Seðlabanki Íslands hefði beitt heimild sinni í 13. gr. seðlabankalaga til að setja bönkunum skorður við erlendri skuldsetningu á útrásarárunum þá hefðu “kaup” bankanna á skuldaviðurkenningum braskara af öllu tagi verið margfalt minni.
Og Ísland væri ekki í greiðsluþroti.