Ég ætla ekki að gera lítið úr undirskriftalista Indefence sem mér skilst að verði afhentur Ólafi Ragnari nú í fyrramálið. Ég er alveg viss um að það er meirihlutavilji hjá þjóðinni að hafna Icesave.
En ég held hins vegar að vöxturinn sem hefur hlaupið í þessa söfnun síðustu daga standist ekki. Fjölmiðlarnir hafa undanfarna daga linnulaust verið að birta tölur yfir mikla fjölgun undirskrifta. En, þetta er of mikið, á of stuttum tíma.
Ég lagðist í smá rannsóknarvinnu. Skoðaði lista yfir þá hundrað síðustu sem hafa skrifað undir á heimasíðu Indefence. Það eru nöfnin sem voru uppi á síðunni milli klukkan 2 og rúmlega 3, aðfaranótt 2. janúar.
Bar svo saman við Íslendingabók.
Ég sló bara inn óalgengu nöfnin, semsé nöfn þeirra sem öruggt er að ekki eigi sér alnafna. Þannig að í raun voru þetta bara stikkprufur.
Við þessa óvísindalegu könnun fann ég nítján einstaklinga sem eru undir kosningaaldri – af þessum eitt hundrað.
Í þessum hópi er talsvert af unglingum sem vantar ekki mikið upp á að verða kjörgengir, en líka börn – þeir yngstu á listanum eru fæddir 2004, 2005, 2007 og tveir sem eru fæddir 2008, og strax komnir í tölvuna.
Ég endurtek að ég ætla ekki að fullyrða að undirskriftasöfnunin sé ómarktæk vegna þessa. Hún speglar ábyggilega meirihlutavilja þjóðarinnar. Þetta eru miklu fleiri undirskriftir en í fjölmiðlamálinu. En vöxturinn í henni síðustu daga hefur verið furðulegur.
Annars er merkilegt að pæla í því hvað verður ef forsetinn neitar að skrifa undir lögin – sem ég tel að hann hljóti að gera í ljósi fyrri framgöngu sinnar og yfirlýsinga.
Á það er réttilega bent að þá séu í gildi lögin sem Alþingi samþykkti í haust, það var ríkisábyrgð með fyrirvörum. Framsókn og Sjálfstæðisflokkur greiddu atkvæði gegn þeim lögum.
Þannig að þetta verður ekki kosning um að borga ekki, heldur kosning um að fella síðustu útgáfu samningsins úr gildi, um greiðslumáta og greiðslutíma.
Og þá yrði væntanlega að semja aftur. Það er spurning hvort þess er að vænta frá forsetanum – ef hann skrifar ekki undir – að hann bendi á einhverja leið út úr ógöngunum.
Sumir tala um að strax eftir hrunið í fyrra hefði átt að fá alþjóðlegan sáttasemjara, einhvern með mikla reynslu af milliríkjadeilum, í málið. Þetta hefði í raun þurft að gerast um svipað leyti og Geir Haarde gaf út yfirlýsingu um að Icesave yrði borgað og löngu áður en Svavar Gestsson – sem VGarar höfðu svo mikla ofurtrú á –komst í málið.
Miklum tíma hefur verið eytt í vitleysu, en er þetta ennþá fær leið?