Maður á kannski ekki að ergja sig á svona, eða vekja á því athygli. En stundum er merkilegt að skyggnast inn í hugarfylgsn manna.
Friðbjörn Orri Ketilsson, einn af eigendum AMX, skrifaði á Facebook nýlega, um Hallgrím Helgason rithöfund:
„Sóminn er sjálfstæðismanna og felst í að verja land og þjóð gegn árásum erlendra óvinaríkja. Ósóminn felst í að taka þátt í Icesave ánauðinni og fallast mótbárulaust á landráð nokkurra Íslendinga sem gert hafa verri samninga en Þýskalandi Hitlers bauðst eftir stríð.
Það var svo sem ekki við því að búast að landsþekktur ofbeldismaður sem réðst að lýðræðislega kjörnum forsætisráðherra og lamdi bíl hans með hnefa afmyndaður af bræði geti skilið hvað það sé að hafa sómatilfinningu.“
Og í dag les maður á vefsíðu félaga hans, Gísla Freys Valdórssonar, sem er líka skríbent á AMX. Hann er að skrifa um Sigrúnu Davíðsdóttur sem hefur sýnt mikla elju í að grafa upp mál tengd bankahruninu erlendis:
„Hrokaverðlaun ársins:
Á síðasta degi ársins ákvað hinn sami Óðinn Jónsson að heiðra skoðanasystir sína Sigrúnu Davíðsdóttur, „fréttaritara“ RÚV í Lundúnum fyrir áróðurspistla sína. Pistlana má lesa á bloggsíðu Egils Helgasonar, almannatengslafulltrúa RÚV.“
Ég meina, er ekki allt í lagi? Hvers konar heimssýn er þarna í gangi? Hvað ræða menn á ritstjórnarfundum hjá AMX – eftir að þeir felldu talið um hvað Eva Joly væri ómöguleg?