Það er undarlegt að sjá páfann í Róm í jólamessu kvarta undan því að jól séu hátíð neyslunnar – þegar hann sjálfur stendur innan um ótrúlegt ríkidæmi Péturskirkjunnar og á líkama hans og allt í kringum hann er gull og gimsteinar. Maður getur eiginlega ekki hugsað sér neitt veraldlegra en einmitt þetta.
Jólin eru hætt að vera einkaeign kristinna manna. Þau snúast um ýmislegt annað en Jesúbarnið. Þau eru haldin víða um heim – og líka meðal fólks sem ekki er kristið. Eins og lesa má í þessari grein í Guardian halda hindúar og múslimar á Bretlandi líka jól.
Og trúleysingjar halda líka jól og geta verið jólabörn. Það er nefnilega líka hægt að finna góða hluti í jólunum þótt trúin sé fjarri – samhug, gjafmildi, samveru með fjölskyldu og vinum, jú ást og kærleika.