Ég verð að segja eins og er að ég hef vissa aðdáun á Kristjáni Loftssyni vegna þrjósku hans við að halda úti hvalveiðum.
Ef hvalastofnar sem sótt er í eru ekki í útrýmingarhættu get ég ekki séð annað en að eðlilegt sé að veiða úr þeim. Við drepum önnur dýr okkur til matar – hvað er það sem gerir hvalina sérstaka fram yfir til dæmis þorsk, svín eða nautgripi?
Hins vegar eru veiðarnar náttúrlega fáránlegar ef ekki er hægt að selja kjötið og það hleðst bara upp í skemmum.
Eins og ég benti á í pistli um daginn hefur hvalkjötsneysla aldrei verið stór partur af íslenskri matarmenningu. Það eru til dæmis engar sérstakar hefðir í kringum hvalkjötið – og það voru aðallega útlendir menn sem stunduðu hvalveiðar frá Íslandi forðum tíð.
Hvalir voru reyndar aðallega veiddir vegna lýsisins sem var fjarska verðmætt fyrir tíma olíu. Lýsið var notað sem ljósmeti og til iðnaðar.
Japan hefur löngum verið talið helsti markaðurinn fyrir hvalkjöt. En þar hefur neysla hvalkjöts líka þurft undan að láta. Hún var mest á árunum eftir stríð þegar var matarskortur í Japan og menn tóku þessari næringu fegins hendi. Hvalkjöt var þá mikið borðað í skólum. Heil kynslóð ólst upp við þetta og hafði smekk fyrir hvalkjöti. Nú er hún að hverfa og yngra fólk kann ekki að borða þennan mat eða kærir sig ekki um það.
Í Japan eins og hér hafa verið þrjóskir menn sem hafa viljað halda úti hvalveiðum – japanskur vinur minn segir mér að raddir þeirra séu orðnar fjarska veikar og hljómgrunnurinn frekar lítill. Þeir eru ekki ungir lengur, en hafa átt nokkurn stuðning í stjórnkerfinu. Hann fer dvínandi. Það er helst ef samtök eins og Greenpeace eða Sea Shepard láta á sér kræla vegna hvalveiða að þær geta orðið þjóðernismál skamma stund.