Hér á Íslandi starfar hópur lögmanna sem er afar samheldinn, sumir kalla þá stjórnulögmenn, Jónas Kristjánsson kallar þá lagatækna – en ég myndi ekki ganga svo langt. Yfirleitt eru þeir bara að vinna fyrir þá sem kaupa af þeim þjónustu – og þeir gera það bæði innan og utan dómsalar. Reyndar má segja að starfið hafi í auknum mæli færst út úr dómsalnum.
Um daginn mótmæltu þeir umfjöllun Kastljóssins um framferði stjórnenda bankanna fyrir hrun, þeim þótti þetta mikil hneisa og mjög einhliða. Þeim láðist reyndar að geta þess í bréfi til fjölmiðla að öllum hlutaðeigandi hafði verið boðið að tjá sig um máli, en enginn þegið.
Það er reyndar komin ágæt reynsla á það á Íslandi að reka dómsmál í fjölmiðlum. Baugsmálið var rekið þannig. Því hefur verið haldið fram að ein helsta ástæðan fyrir því að Jón Ásgeir kom upp fjölmiðlaveldi sínu hafi verið til að efla málsvörnina í Baugsmálinu.
Trúir þessu eru stjörnulögmennirnir ekki einungis að verki innan dómhúsanna – heldur reyna þeir að hafa áhrif á almenningsálitið hvenær sem færi gefst. Líkt og í Baugsmálinu er staðan sú að ákæruvaldið er einatt í vondri stöðu til að svara fyrir sig.
En maður spyr stundum – hvað dettur þeim í hug næst?
Karl Axelsson, einn stjörnulögmannanna, heldur því nú fram að það eigi að virða skjólstæðingi sínum, Baldri Guðlaugssyni, það til refsilækkunar að fjölmiðlar hafi fjallað um mál hans. Ágangur fjölmiðla sé refsing í sjálfu sér. Hann telur reyndar að máli sé ónýtt vegna þess að um það hafi verið fjallað í fjölmiðlum.
Nú er það langt í frá óþekkt í hinum vestræna heimi að mikið sé fjallað um afbrot í fjölmiðlum. En skyldi það bara vera þegar hvítflibbabrot eiga í hlut að fjölmiðlaumfjöllun sé ígildi refsingar – eða ætti kannski að víkka þetta út og láta það gilda um fleiri flokka afbrota?