Ég hef áður fjallað um það hér á síðunni að vegna einokunarstöðu sinnar séu Hagar í raun dálítið einkennilegt félag á hlutabréfamarkaði. Það hefur mikið verið rætt um nauðsyn þess að brjóta upp félagið til að skapa virka samkeppni – en eigi það að verða verulega arðsamt bendir margt til þess að þurfi fremur að gefa í varðandi einokunina en hitt.
Arnór Gísli Ólafsson blaðamaður er á svipuðum nótum í pistli sem hann skrifar í Viðskiptablaðið. Hann bendir á að arðsemi Haga sé slík að eitthvað hljóti að vera bogið við félagið, það hljóti að hafa skyldur við neytendur sem versla hjá því en ekki bara við eigendur hlutafjár.
Arnór skrifar:
„Arðsemi eigin fjár á fyrri helmingi rekstrarárs Haga mældist vera um 45% á ársgrundvelli en reikna má með að arðsemin verði enn meiri þegar árið verður gert upp í heild þar sem jólasalan fellur á síðara helming rekstrarárs félagsins. Ég ætla því að leyfa mér að spá að arðsemi eigin fjár Haga verði vel yfir 50% þegar rekstrarárið verður gert upp.
En þá er það hin hliðin á Högum sem snýr ekki að fjárfestum eða sparifjáreigendum heldur neytendum. Lögmál hagfræðinnar segir okkur að á fullkomnum samkeppnismarkaði verði hagnaður fyrirtækjanna nánast enginn — eða svo horft sé raunsærra á málin, aðeins litlu meiri en af áhættulausri fjarfestingu.
Slík fullkomnun er sjaldnast til í raunveruleikanum þannig að oft skila fyrirtæki á samkeppnismarkaði sæmilegri arðsemi — en þó ekki 50% til lengdar því fjárfestar renna ævinlega á lyktina af peningum og hver vildi ekki komast í 50% ávöxtun þessa dagana? Það skal þess vegna fullyrt hér — þótt forstjóri Haga og aðrir þar á bæ muni vafalaust mótmæla enn eina ferðina og segja lögmál hagfræðinnar ekki gilda um þá og markaðinn sem þeir starfa á — að fyrirtæki sem skilar 50% arðsemi á eigin fé starfar að óbreyttu ekki á virkum samkeppnismarkaði. Annað hvort er ekki virk verðsamkeppni eða þá hitt, sem er líklegra, að verulegar aðgangshindranir séu fyrir aðra að komast inn á markaðinn.
Hagar eru ekki bara skuldbundnir eigendum sínum heldur einnig samfélaginu sem þeir starfa í og neytendum sem versla hjá þeim: látið þá einnig njóta góðs af góðum rekstri. Að öðrum kosti ættu stjórnvöld að skoða alla kosti, þá hörðustu líka, til þess að skapa virka samkeppni á þessum markaði.“