Ekki gerir maður lítið úr vandræðaástandinu sem ríkir í Grikklandi.
En þegar lýsingar á því koma frá þjónum kirkjunnar renna á mann tvær grímur.
Í þessari frétt á mbl.is er vitnað í mann sem sagður er vera yfirmaður hjálparstofnunar biskupsdæmisins í Aþenu.
Hann segir að Grikkland sé á barmi „mannúðarkreppu“ og það sé erfitt að hjálpa öllum sem þurfi. Það er örugglega ekki ofmælt.
En kirkjan í Grikklandi er ótrúlega rík. Hún á fé, gull, listaverkafjársjóði, húseignir, landeignir, jafnvel heilu þorpin.
Ríkið og kirkjan eru mjög samslungin – pólitísk áhrif hennar eru mjög mikil. Og kirkjan og hollvinir hennar reyna að standast allar tilraunir til að láta kirkjuna axla byrðar í kreppunni – til dæmis með því að láta hana borga meiri skatta.