Það er ljóst að stór hópur áhrifamanna í íslensku samfélagi þarf að bera vitni í dómsmálinu gegn Geir Haarde. Þetta gæti orðið bæði óþægilegt og langdregið. Í þessum hópi eru bæði fyrrverandi og núverandi ráðherrar.
Hvort það mun síðan leiða til niðurstöðu er óvíst – ég hef talið heldur líklegt að Geir yrði sýknaður að lokum. Bæði er samsetning dómsins þess eðlis – og svo er hitt að það getur verið vandasamt að færa sönnur á að stjórnmálamenn hafi brotið af sér í starfi eða sýnt vanrækslu.
Og eins og áður hefur verið sagt, það að setja Geir einan fyrir dóminn lætur hann líta út eins og píslarvott – það er líkt og hann eigi einn að rogast með þennan kross.
En tímasetning þingsályktunartillögu Sjálfstæðisflokksins helgast ekki beinlínis af málinu sjálfu – það er ekki á dagskrá fyrr en miklu seinna í vetur – heldur er ástæðan augljóslega sú að skapa usla á síðustu dögum þingsins.
Ríkisstjórnin virtist ætla að sigla inn í jólafrí í sæmilegum friði – ólíkt því sem hefur verið undanfarin ár. Það var talað um að væri óvenju friðsamlegt um að litast í stjórnmálunum – einhver talaði reyndar um svikalogn.
Það er nokkuð til að vinna að hleypa þessu upp viku fyrir jól.