Það er dálítið skrítið að lesa þennan pistil Ólafs Arnarsonar þar sem hann gefur sér að rannsókn sérstaks saksóknara séu meira og minna ónýtar.
Kastljós hefur undanfarin kvöld fjallað um markaðsmisnotkun bankanna – það eru aðferðir sem bankarnir notuðu til að blekkja markaðinn, í þeim tilgangi að halda uppi verði á hlutabréfum eða hækka þau.
Þetta þykja mjög alvarleg afbrot þar sem hlutabréfamarkaðir starfa í alvörunni – hér höfum við haft meira svona nú jæja-viðhorf.
Samt virðist vera ljóst að bankarnir notuðu hundruð milljarða í þessu skyni.
Hér á Íslandi hefur gengið mjög erfiðlega að refsa fyrir efnahagsbrot – en reyndar er til nýlegt dómafordæmi í þessu tilviki.
Hæstiréttur dæmdi tvo starfsmenn Kaupþings í sex mánaða fangelsi síðastliðinn vetur fyrir að hafa óeðlileg áhrif á verð bréfa í Kaupþingi. Miðað við það gæti verið athyglisvert að fylgjast með því hvernig þessum málum reiðir af fyrir dómi – og það er ljóst að hér er um miklu stærri fjárhæðir að ræða.