Maður gleymir því víst aldrei hvað maður var glaður þegar komu skólafrí – það var alveg sérstök tilfinning þegar jólafríið brast á.
Og maður skynjar þessa tilhlökkun hjá börnunum.
En einhvers staðar í kerfinu er fólk sem fattar þetta ekki alveg.
Síðasta helgin fyrir jól er að renna upp. Maður hefði haldið að barnaskólum lyki í dag – þessi föstudagur væri síðasti dagurinn fyrir frí.
En svo er ekki, það á að kenna á mánudaginn – hann kemur þarna eins og út úr kú eftir helgina.
Þetta styttir jólafríið heldur betur.
Ég held að þeir sem skipuleggja þetta hjóti að vera rúðustrikaðir.
Þeir sjá væntanlega að það eigi að vera svo og svo margir kennsludagar á ári – og svo hafa þeir kannski hugfast að skólarnir eru að talsverðu leyti orðnir geymslustaðir fyrir börn. Skólaárið lengist, en maður verður ekki var við að afköstin í náminu séu meiri.
En ef ég væri krakki í skóla myndi mér þykja ansi fúlt að fá ekki að ganga út í frelsi jólafrísins í dag.