Kastljósið er að hefja umfjöllun um markaðsmisnotkun bankanna á árunum fyrir hrun.
Af afbrotunum sem eru til rannsóknar er þetta líklega hið stærsta. Bankarnir beittu fjármunum sínum og afli til að hækka gengi sitt skipulega á hlutabréfamarkaði.
Úr varð stærsta hlutabréfabóla sögunnar.
Margir létu blekkjast af þessu, sumir stukku á vagninn og högnuðust, að minnsta kosti um tíma, aðrir töpuðu stórt.
Umfjöllun Kastljóssins byrjaði í gærkvöldi með viðtali við Ólaf Þór Hauksson. Eftir það fór ég inn á Facebook – já, ég er þar enn.
Ég sá að einn fyrrverandi bankamaður skrifaði þar og kallaði hann Óla SS – jú, hann er sérstakur saksóknari, en það leyndi sér ekki hvað er vísað í.
En þessi rannsókn er fjarskalega mikilvæg. Ekki vegna refsigleði eða vegna þess að nauðsynlegt sé hneppa menn í fangelsi, heldur vegna þess að íslenska réttarkerfið hefur hingað til virst ófært um að fjalla um hvítflibbaglæpi. Það er býsna stór gloppa.
Því var áriðandi að koma embættinu á fót.
Það eru hræðilega vond skilaboð í réttarríki að það sé glæpur að stela kjötlæri eða farsíma en allt í lagi að beita svikum til að hagnast um milljónir eða milljarða.
Og svo má bæta því við að meðan þessi meintu svik eru óuppgerð eru það eins og hverjir aðrir órar að ætla að hafa hlutabréfamarkað á Íslandi. Þannig að það er ekki síst í hag þeirra sem ætla að starfa þar að botn fáist í þessi mál.