Hvernig dettur fólki í hug, í þessu fámenna landi, í þessu mikla nábýli, að ætla að fara gera út um alvarlegt sakamál á bloggi og spjallsíðum internetsins?
Þetta hefur maður mátt horfa upp á síðustu daga – í ýmsum miður skemmtilegum myndum.
Að þetta skuli vera orðið aðalhitamál desembermánaðar segir sitt um hversu erfitt við eigum með að umgangast nýmiðlana svokallaða – hversu stutt við erum komin áleiðis í að þróa heilbrigðar samskiptavenjur á þeim.
Það má reyndar nefna fleiri upphlaup sem eru lýsandi fyrir þetta – þau eru bara ekki jafn alvarleg – eins og til dæmis hið óskiljanlega mál guðfræðikennarans sem móðgaði trúleysingjana, og svo má í raun lengi telja. Nýr dagur, nýtt upphlaup, ný geðshræring.
Hraðinn er svo mikill að menn virðast ekki geta haldið heilli hugsun nema mesta lagi einn dag. Þá kemur eitthvað nýtt til að býsnast yfir.
Þegar sakamál eins og þetta eiga í hlut getur fólk ekki farið að skiptast í lið eins og það sé íþróttakappleikur. Rannsókn málsins verður að hafa sinn gang – og maður vonar að lögregla komist til botns í málinu, að réttlætið sigri.
Hér á í hlut maður sem er minni háttar fjölmiðlastjarna, hann hefur látið út úr sér ýmislegt ógeðfellt í gegnum tíðina og það er umdeilanlegt að 365 skyldi púkka svona upp á hann – en maður verður beinlínis var við að hlakkar í mörgum vegna þess hvernig er komið fyrir honum. Sem fjölmiðlamaður á ég ekki von á öðru en að hann sé búinn að vera. Hver vill ráða hann eftir þessa orrahríð?
Svo er hið unga meinta fórnarlamb – það er næsta öruggt að öll þessi umfjöllun er henni ekki hagfelld. Eða hvernig er að standa í svona máli í miðju kastljósi fjölmiðlanna? Ég held að fæstir myndu kæra sig um það. Myndbirting Pressunnar var náttúrlega hrapalleg mistök – myndin var svo fjarlægð og beðið afsökunar – en hvað með alla hina fjölmiðlana og bloggsíðurnar sem hafa verið að velta sér upp úr þessu máli?
Ég er einn af þeim fyrstu sem fór að nota nýmiðlana til að tjá mig um samfélagsmál, hef haldið úti bloggi í næstum þrettán ár. Nú finnst manni næstum eins og reiðin á internetinu sé orðið sjálfstætt samfélagsvandamál. Sjálfur er ég í dálítið ankanalegri stöðu því ég aðhyllist fremur íhaldsöm gildi í fjölmiðlum. Mér til dæmis fannst Morgunblaðið koma best frá þessu máli, það skrifaði einfaldlega að ung kona hefði kært karlmann fyrir nauðgun og að málið væri til rannsóknar hjá lögreglu.
Það var alveg nóg.