Ungur maður, Óttar G. Birgisson, skrifar afskaplega tímabæra grein um netumræðuna á vef Pressunnar. Óttar kallar eftir heilbrigðri umræðu á netinu og setur fram nokkrar reglur sem geta hjálpað. Þær eru flestar mjög gagnlegar.
Flest af þessu kannast maður við, að þeir sem gera athugasemdir lesa ekki textann sem þeir eru að fjalla um, maður hefur sjálfur lent í að skrifa eitthvað á netið eða senda tölvupóst sem maður dauðsér eftir, maður hefur vissulega lent í því að það sem átti að vera kaldhæðni misskilst gróflega (það er samt verra að gefa hana alveg upp á bátinn), maður hefur dottið í þá gryfju að beita ad hominem röksemdafærslum – og jú, það kemur fyrir að maður les skrif eftir fólk sem maður er ekki viss um að gangi heilt til skógar.
Reglurnar sem Óttar setur fram eru svohjóðandi, hann tekur líka fram að skoðanir eigi rétt á sér og ekki eigi að fórna málfrelsinu:
— — —
1. Lestu fréttina/færsluna sem þú ætlar að skrifa athugasemd við.
Þetta hljómar kannski fáránlega en svo virðist sem alltof margir lesa bara fyrirsögn eða renna aðeins hratt í gegnum færslu og skrifa síðan athugasemd út frá því sem þau halda að hún hafi verið um.
2. Ef málið er eitthvað sem snertir þig djúpt og kveikir tilfinningar, slepptu því þá að skrifa athugasemd eða bíddu með það þar til þú ert orðinn rólegur.
Oft koma upp mál í samfélaginu okkar sem eru viðkvæm. Ef þú finnur hendina titra er alveg eins gott að bíða með eða sleppa að taka þátt í umræðunni.
3. Lestu allar aðrar athugasemdir yfir.
Þegar maður les yfir langa runu af athugasemdum er iðulega mikið um misskilning sem byggir yfirleitt á því að fólk nennir ekki að lesa hvað aðrir segja en gera samt ráð fyrir því að allir munu lesa sína athugasemd. Oft er sambærileg athugasemd búin að koma fram og jafnvel búið að svara henni.
4. Slepptu því að vera kaldhæðin/n á netinu.
Kaldhæðni er eitthvað sem ég nota sjálfur mikið. Í kjötheimum er kaldhæðni yfirleitt augljós og ódýr leið til að lýsa yfir óánægju sinni eða að gefa í skyn að maður sé ósammála. En í netheimum er það ekki alltaf eins augljóst þar sem misjafnt er hvernig fólk les skrifuð orð. Kaldhæðni á netinu er ávísun á misskilning og aukin leiðindi.
5. Taktu inn í myndina að manneskjan sem þú ætlar að svara gæti verið veik.
Fyrir um ári síðan var umdeilt mál í fjölmiðlum og tók ég eftir bloggi þar sem manneskja kom með öfgakenndar hugmyndir það mál. Hún var skotin í kaf í athugasemdum, kölluð geðsjúklingur, fáviti og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta var kona sem var mjög góður penni og virtist vera með allt sitt á hreinu. Ég komst þó að því seinna að þessi kona var greind með geðklofa sem er alvarleg geðröskun.
Tökum sem dæmi að þú værir að ganga úti á götu og að þar kæmi maður sem öskraði að heimsendir væri í nánd og bleika skrímslið muni bara bjarga þeim sem hoppa á öðrum fæti. Myndir þú ekki bara brosa og ganga í burtu. Fæstir myndu stoppa og gefa á sér tal. „Sko, það eru engar emperískar rannsóknir sem sýna fram á að…..“ Nei. Fólk myndi hunsa manneskjuna. Það er ágætt að hafa þetta í huga á netinu. Ef mannseskja skrifar eitthvað það brjálað að maður heldur að hún sé veik á geði, þá gæti hún einfaldlega verið það.
6. Kynntu þér staðreyndir og forðustu ýkjur.
Þetta segir sig nú sjálft. Hver kannast ekki við umræðu á netinu þar sem fólk keppist við að skrifa það sem þeir halda, eða heyrðu á kaffistofunni í vinnunni. Á tímum netsins er mjög auðvelt að kynna sér staðreyndir og kveða niður bábiljur með einfaldri leit á Google. Nýtum okkur þessa tækni áður en við svörum einhverju bulli og munum að 64% allrar tölfræði er skálduð upp á staðnum.
7. Settu þig í spor annara.
Áður en við skrifum athugasemd er alltaf hollt að velta því svolítið fyrir sér hvað greinahöfundur eða sá sem skrifaði athugasemdina sem þú ætlar að svara, sé að ganga í gegnum. Hvernig komst manneskjan að þessari niðurstöðu? Ert þú að fara að breyta skoðun hennar með niðurrifi og leiðindum? Mun hún hunsa staðreyndir? Græði ég eitthvað á því að svara?
8. Lestu svar þitt yfir og haltu þig við efnið.
Þetta er sennilega eitt það mikilvægasta. Ég hef margoft skrifað langa athugasemd þar sem ég tel mig vera með allt á hreinu. En þegar ég les hana yfir sé ég oft að þetta er algjör vitleysa og hætti því við að svara. Síðan minnka innsláttavillur og samhengisleysi trúverðugleika athugasemdar þinnar. Ef svarið er laust við innsláttarvillur og í góðu samhengi. Spurðu þig þá loks: Bætir það einhverju við umræðuna ? Ef ekki, slepptu þá að svara.
9. Forðastu rökvillur.
Opinber umræða á netinu er ekki Morfís og það er engin að taka niður stig. Þess vegna er ekki nauðsynlegt að þekkja allar rökvillur og nefna þær á nafn en þó er gott að passa sig á þeim. Algengar rökvillur eru t.d. ósanngjarnar spurningar á borð við: Ertu hættur að lemja konuna þína ? Hvort sem svarið er nei eða já gefur það strax til kynna að viðkomandi hafi lamið konuna sína. Það er búið að dæma manninn í spurningunni sjálfri.
Önnur rökvilla er sú að ráðast á manneskjuna sjálfa í stað skoðun hennar. Til dæmis að segja: Af hverju ættum við að taka mark á þér þar sem þú ert hommi/kona/sjálfstæðismaður/trúlaus/o.s.fr.v.
10. Mundu að bakvið hverja athugasemd er lifandi manneskja.
Að lokum vil ég bara minna á að við erum öll manneskjur með tilfinningar. Þær særast líka í gegnum netið. Þótt það sé auðveldara að kalla einhvern fávita í gegnum netið en út á götu þá eru orðin alveg jafn sterk og geta haft jafnmikil áhrif. Gleymum því ekki og munum að aðgát skal höfð í nærveru sálar.