fbpx
Föstudagur 19.desember 2025
Eyjan

FDJ

Egill Helgason
Sunnudaginn 4. desember 2011 22:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég þekki nokkuð af fólki á Íslandi sem var sent í æskulýðsbúðir á Austur-Þýskalandi þegar það var börn. Sumir fóru jafnvel ár eftir ár. Ég veit ekki hvernig þessu samstarfi var háttað, en börn sósíalista voru velkomin í slíkar búðir.

Kommúnistaflokkurinn hafði mjög sterka æskulýðshreyfingu sem nefndist Freie Deutsche Jugend, meðlimir gengu í bláum skyrtum – sjálfur Erich Honecker var foringi æskulýðshreyfingarinnar í upphafi.

Það var talið nauðsynlegt að innræta ungviðinu hugmyndir og hugsjónir flokksins – og þess vegna var allt gert til að hlaða undir Frjálsa þýska æsku eða FDJ eins og það var skammstafað.

Íslendingar hafa verið eins og gestir í þessu – og sjálfsagt hefur verið gaman hjá einhverjum í þessum búðum. Þar voru börn og ungmenni frá ýmsum öðrum löndum.

En fyrir þá sem bjuggu í Þýska alþýðulýðveldinu var það dauðans alvara – það fólk hafði ekki ferðafrelsi eða tjáningarfrelsi.

Góður vinur minn er Þjóðverji sem nú býr í Grikklandi. Hann er jafn gamall mér, næstum upp á dag. Hann fór sína leið gegnum æskulýðshreyfingu flokksins, var álitinn efnilegur íþróttamaður og var settur í sérstakan skóla þar sem var alið upp íþróttafólk sem átti að keppa fyrir hönd Þýska alþýðulýðveldisins. Hann keppti í hástökki, en hætti í tæka tíð áður en farið var að dæla í hann hormónum og annarri ólyfjan. Sumir af félögum hans í skólanum urðu ólympíuverðlaunahafar – aðallega vegna þess að þeir notuðu ólögleg lyf.

En vinur minn komst upp á kant við stjórnvöld. Vegna þessa fékk hann ekki að fara í háskóla, hann mætti engu nema kúgun og ofríki þangað til hann flúði land 1985. Hann er ennþá beiskur yfir þessu – sameiginleg vinkona okkar segir að uppvaxtarárin í Austur-Þýskalandi sitji eins og fleinn í sál hans, hann getur ekki sætt sig við þau.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Karl Ágúst Úlfsson: Aldurinn farinn að segja til sín – eins gott að þú ert að hætta

Karl Ágúst Úlfsson: Aldurinn farinn að segja til sín – eins gott að þú ert að hætta
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Litli hluthafinn rýfur málhvíldina

Þorsteinn Pálsson skrifar: Litli hluthafinn rýfur málhvíldina