
Það hefur margoft verið bent á það á þessari síðu að þær reglur sem gilda um forsetaembættið eru í algjörum graut.
Forseti hefur í raun sjálfdæmi um það hvernig hann sinnir stöfum sínum – hvort hann vill beita sér úti á hinum pólitíska vettvangi eða vera nokkurs konar táknmynd.
Kjósendur eru líka mjög óvissir um hvað þeir vilja. Stundum er líkast því að þeir vilji hvort tveggja táknmyndina og pólitíska forsetann.En það er ekki hægt.
Undir eins og forsetinn beitir málskotsrétti – sem eðli málsins samkvæmt yrði alltaf í umdeildu máli – er hann orðinn umdeildur. Einhver hluti þjóðarinnar mun þá snúa við honum baki.
Grein sem Þóra Arnórsdóttir skrifar í Moggann í gær undirstrikar þessa þversögn. Þar talar hún bæði um forsetann sem sameiningartákn, en segist um leið ekki myndu hika við að beita málskotsréttinum.
Forsetinn eigi að vera tilbúinn að standa með þjóð sinni, segir hún, og það endurómar það sem Ólafur Ragnar hefur sagt undanfarin ár. Það má eiginlega segja að með greininni hafi Þóra fært sig nær Ólafi Ragnari, þau eru bæði á vinsælum stað, á móti þinginu.
En um leið segir frambjóðandinn að ekki sé boðlegt að stór mál séu knúin í gegnum þingið með minnsta mögulega meirihluta eins og hafi tíðkast hér um árabil.
Jú, átakapólitíkin er vond, en um leið hlýtur að verða að taka tillit til þess að við búum við þingræðiskerfi þar sem oftlega getur verið uppi sú staða að ríkisstjórnir hafa nauman meirihluta á Alþingi. Ef forseti tæki þá afstöðu að naumur meirihluti á þingi dugi ekki, þá gæti í raun verið ómögulegt fyrir slíkar ríkisstjórnir að starfa.
Umræðan fyrir kosningarnar bendir eindregið til þess að ekki verði lengur beðið með að skýra ákvæðin um forsetann í stjórnarskránni.