
Ég hef séð margar uppfærslur af La Bohème, en sýning Íslensku óperunnar í Hörpu er ein sú besta – ef ekki sú allrabesta.
Þetta helgast af ýmsu, einstaklega góðum og samstilltum leikhóp, glæsilegu sjónarspili sem tekst að setja upp í þessu rými – sem þó er ekki óperuhús – krafti og innileika sem ríkir í sýningunni – jú, og auðvitað góðum söng.
Einhvern veginn hefur maður verið skeptískur á óperuflutning í Hörpu, en í þetta sinn tókst það með glæsibrag. Sviðslausnirnar eru afar skemmtilegar, með þök Parísarborgar, skuggamyndir sem birtast á þili, kvikmyndabúta – og sérdeilislega fallega búninga.
Ég sat framarlega, aðeins tveimur röðum frá hljómsveitargryfjunni – þar ofan í er heil sinfóníuhljómsveit – og sýningin ríghélt, maður tók varla eftir tímanum fyrr en hún var búinn.
Ópera hefur ekki áður verið flutt með svo veglegum hætti á Íslandi – þetta tókst frábærlega.
Maður gengur út úr Hörpu eftir svona sýningu og hún er eins og ævintýrahöll – eins og eitthvað sem maður trúir varla að sé á Íslandi, sagði tíu ára sonur minn.
