
Íslendingar eru skrítin þjóð – og ef þeir geta fundið sér tittlingaskít til að deila um þá fara þeir rakleitt þangað.
Guðmundur Andri Thorsson segir á Facebook-síðu sinni að ræst hafi obsúkrasta ljóðlína Megasar: „Mjólkursamsalan elur á úlfúð og hatri…“
Það er deilt um stráka- og stelpuís sem Emmess hefur sett á markað – bláan fyrir stráka, bleikan fyrir stelpur.
En um einokunarstöðu Mjólkursamsölunnar er sjaldnast talað – og alveg ábyggilega ekkert gert til að breyta því.
Og ekki er heldur rætt um vörurnar sem eru seldar hér í krafti þessarar einokunarstöðu – og varla hægt að fá neitt annað nema fyrir ótrúlegan okurprís.
Gunnar Smári Egilsson skrifar á Facebook-síðu sína í dag og margir hafa orðið til að deila þessari færslu.
„Í innihaldslýsingu á öllum hörðum osti frá Osta & smjörsölunni (Gouda, óðalsosti, brauðosti, Maribo, skólaosti o.s.frv.) stendur “rotvarnarefni (E252)”. E252 er saltpétur; saltafbrigði sem varð til þess að upplýstar mæður hættu að gefa börnunum sínum unnar kjötvörur. Vegna þessarar andstöðu er nánast ómögulegt lengur að fá unnar kjötvörur með saltpétri (það er helst að maður fái saltpétur í smygluðu ítölsku salami). Saltpétur er hins vegar í ostinum, sem upplýstu mæðurnar gefa börnunum sínum og halda að sé hollustuvara.“