
„Í kvöld urðu þáttaskil“, skrifar Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra á Facebooksíðu sína í kvöld.
Hún skýrir þessi orð ekki nánar, maður hlýtur að spyrja í hverju þáttaskilin felast – því þetta er stórt orð.
Það sem gerðist í þinginu var að mörgu leyti fyrirsjáanlegt.
Sjálfstæðismenn greiddu allir atkvæði eins og búist hafði verið við. Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn klofnuðu – innan beggja flokka hefur verið ágreiningur um Landsdóm. Hann kom fram þegar málið var afgreitt á sínum tíma. Það þarf ekki að koma sérstaklega á óvart að Össur hafi greitt atkvæði á móti frávísunartillögunni – hann hefur alltaf verið á móti þessari leið. Össur sat jú í ríkisstjórninni með Geir Haarde.
Stóru tíðindin felast í hughvarfinu sem hefur orðið meðal núverandi og fyrrverandi þingmanna Vinstri grænna: Ögmundar Jónassonar, Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur, Jóns Bjarnasonar, Atla Gíslasonar, Lilju Mósesdóttur og Ásmundar Einars Daðasonar.
Nú verður sjálft málið tekið fyrir, þá verður beinlínis ákveðið hvort afturkalla skuli ákæruna á hendur Geir Haarde.
Það verður forvitnilegt að sjá hvernig atkvæðin falla í þeirri umferð, en það er ljóst að málið stendur tæpt í þinginu.
En það er ljóst að það er aðallega innan Vinstri grænna sem atburðir dagsins gætu valdið þeim þáttaskilum sem Svandís talar um.