

Íhaldsmenn í Bretlandi eru verulega farnir að ókyrrast vegna stórsóknar Sjálfstæðisflokks Nigels Farage, Ukip.
Þeir láta eins og þetta snúist allt um Evrópusambandið, en það er ekki raunin. Þetta snýst líka um innflytjendamál, um hjónabönd samkynhneigðra, um frjálslyndi – það er minnst frjálslyndi hluti Breta sem velur Ukip. Kjósendur fara líka frá Verkamannaflokknum þangað yfir.
En innan Íhaldsflokksins er alltaf togstreitan um Evrópu. Nú segir fyrrverandi fjármálaráðherra Thatcher, Nigel Lawson, að Bretar eigi að ganga úr Evrópusambandinu. Lawson hefur síðustu árin einkum vakið athygli fyrir framgöngu sína í loftslagsmálum – hann er framarlega í hópi þeirra sem efast um að loftslagsbreytingar séu af mannavöldum.
Lawson var á sínum tíma lykilmaður í þeim stóru breytingum sem Thatcher gerði á bresku samfélagi. Langtímaáhrif þeirra voru meðal annars að fjármálastarfsemi óx geigvænlega en iðnaði hrakaði – ójöfnuður fór mjög vaxandi og ákveðnum landshlutum hnignaði.
Nú finnst mörgum í Bretlandi að þetta hafi verið frekar misráðið – að þarna hafi skammsýni ráðið för. Þeir spyrja, eins og má sjá á forsíðu síðasta heftis vikublaðsins New Statesman.

Ekki bætir úr skák að eftir tvær vikur fer fram á sjálfum Wembley -leikvanginum í London úrslitaleikurinn í Meistaradeildinni í fótbolta. Þar keppa tvö lið, annað frá München og hitt úr Ruhr-héraðinu. Ensk lið eru víðs fjarri.