
Það er spurning hvort ekki sé best að lofa sem minnstu fyrir kosningar.
Beppe Grillo sem vann stórsigur í kosningunum á Ítalíu lofaði eiginlega ekki neinu. Það gerði heldur ekki Jón Gnarr í Reykjavík, hann sagði bara einhverja vitleysu.
En svo má hafa kosningaloforðin einföld, eins og hjá Berlusconi sem lofaði að borga fólki úr ríkissjóði ef það kysi sig.
Kjósendur eru afar vantrúaðir á kosningaloforð núorðið – og varla von á öðru.
Á Íslandi höfum við reyndar kerfi samsteypustjórna þannig að flokkar geta skorið niður loforð sín á víxl í stjórnarmyndunarviðræðum þangað til lítið sem ekkert er eftir.
Þá þarf enginn að standa við neitt.
Það er líklegt að hvaða ríkisstjórn sem tekur við í vor, verði orðin afar óvinsæl strax með haustinu.
Það eru ákveðin merki um að kosningabaráttan muni einkennast af yfirboðum, loforðum um skattalækkanir, niðurfellingu skulda og stóraukinn hagvöxt. Einn framsóknarmaður sagði að hagvöxturinn þyrfti að vera fimm prósent til að hægt væri að framkvæma loforðin.
Líklega mun kosningabráttan að einhverju leyti snúast um nánari útfærslu á þessu öllu. Eiginlega þyrfti einhver óháður aðili að taka sig til og fara yfir loforðin, fullyrðingarnar og talnaefnið.
En það er ekki líklegt að við komumst langt. Við erum enn að rífast um hvort og hvernig skattar hafi hækkað eða lækkað síðustu árin – og í fjölmiðlum er þrasað fram og aftur um útreikninga á verðtryggingu.
Þannig að það er kannski best að gera eins og Beppe Grillo. Lofa sem minnstu og þurfa ekki að standa við neitt eða svíkja neitt.