Það er alveg rétt hjá Styrmi Gunnarsyni að barnalegt er af Samfylkingunni að halda því fram að afstaða launþega til kjarasamninga sé ríkissjórninni að kenna.
Og það er líka rétt að ástæðurnar eru dýpri.
Kjarasamningum er hafnað sem sýnir glöggt að Samtök atvinnulífsins, Alþýðusambandið og ríkisstjórni hafa vanmetið stöðuna.
Þeir héldu að fólk myndi sætta sig við örlitlar kauphækkanir í skiptum fyrir stöðugleika.
Nú er kjarasamningum hafnað og líklegt að þurfi að bjóða miklu betur svo ekki komi til stórátaka á vinnumarkaði. Launþegar líta almennt ekki svo á að verðbólga – sem örugglega fer af stað – sé á þeirra ábyrgð.
Það er eðlilegt þegar horft er til þess að Ísland er að verða láglaunaland og ekkert sem bendir til þess að það breytist.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir lögfræðingur skrifar grein um þetta í Viðskiptablaðið:
Ísland er láglaunaland. Það blasir auðvitað við um lægstu launin en á ekki síður við um millitekjur og jafnvel um hæstu laun hjá hinu opinbera. Fólk sem fer utan í leit að vinnu fer ekki vegna þess að hér sé ekki vinnu að fá, því atvinnuleysi er blessunarlega lægra en víða í Evrópu. Fólk fer af landinu vegna launakjara. Það merkilega er að þetta á við hvort sem um er að ræða ómenntað, iðnmenntað eða langskólagengið vinnuafl. Og nú þegar semja á um laun er kannski tímabært að launþegar beiti rökfræðinni um landflóttann fyrir sig.