Þeir sem hafa mest gaman af Ólympíuleikum eru þeir sem halda uppi harðstjórn og kúgun.
Og þeir leggja líka langmest í dæmið.
Við höfum dæmin frá Berlín 1936, Peking 2008 – og nú eru að fara að byrja algjörlega útblásnir Vetrarólympíuleikar í Sochi í Rússlandi.
Sochi var einu sinni uppáhaldsstaður Jósefs Stalíns. Þar var sumarleyfisbyggð nómenaklatúrunnar á tíma hans.
Það fer vel á þessu því svonefndir chekistar eru enn við völd í Rússlandi, meðlimir lögreglusveitanna sem nefndust líka NKVD og KGB.
Vladímír Pútín er upprunninn þar. Í hinni alræmdu Lubyanka-byggingu í Moskvu er enn starfsemi arftaka þessara sveita, eins ósmekklegt og það er.
Vetrarólympíuleikar hafa yfirleitt verið frekar lágstemmdir, enda áhugi á vetraríþróttum ekki almennur. Í anda ríkja þar sem er harðstjórn er orðin breyting þar á. Ólympíuleikarnir í Sochi eru fáránlega dýrir. Þetta snýst um tvennt, annars vegar eru leikarnir skrautsýning fyrir Pútín og hins vegar hafa ólígarkar sem eru í náðinni hjá forsetanum getað makað krókinn á framkvæmdunum.
Spillingin kringum leikana er sögð óskapleg. Boris Nemtsov, sem eitt sinn sat í stjórn Borisar Jeltsín, segir að leikarnir séu eitt mesta spillingardíki í sögunnar. Þetta og fleira má lesa í fróðlegri grein um leikana sem birtist í New York Times.
Menn hafa áhyggjur af því að hryðjuverkamenn láti til skarar skríða. En það er tvennt annað sem er miklu áhyggjusamlegra. Annars vegar að Ólympíuleikum sé leyft að snúast upp í sýndarmennsku harðstjóra og hins vegar hvernig þarna fléttast inn í ástand mannréttinda í Rússlandi.
Það er lofsvert hvernig Þjóðverjar bregðast við þessu með því að íkæðast búningum sem minna á fána samkynheigðra. Við þurfum meira af slíku og ráðamenn og íþróttafrömuði sem makka ekki bara með harðstjóranum, heldur tala hátt og snjallt um mannréttindi í Sochi.