
Það er nákvæmlega ekkert að því að forseti Íslands og frú hans fari suður í Keflavík og taki sér stöðu með fátæku fólki – fólki sem þarf að fá matargjafir til að lifa jólin. Ef forseti á ekki að vera þarna – þá hvar?
Þetta eru heldur ekki jafnmikil tíðindi og sumir vilja vera láta. Það þarf ekki að gúgla mikið til að sjá að Ólafur Ragnar hefur margoft tekið þátt í atburðum á vegum Fjölskylduhjálpar Íslands. Hann og Dorrit hafa líka borðað með fátæku fólki og utangarðsfólki á Hjálpræðishernum á jólum.
Þarna eru semsagt engin sérstök skilaboð um hvort Ólafur Ragnar ætlar að bjóða sig áfram sem forseti.
Ólafur sagði í viðtali við Rúv:
„Satt að segja er mér það óskiljanlegt að í svona litlu landi með svona öflugar og margþættar stofnanir og alla þessa umræðu um velferðina og samhjálpina skuli okkur ekki takast að skipuleggja okkur á þann hátt að það geti allir gengið að því vísu að þeir geti haldið hátíðir af þessu tagi á mannsæmandi hátt. Að þurfa að standa hérna í biðröð í kuldanum til þess að fá skyr og mjólk og brauð og kjöt og smá gjafir handa börnunum sínum. Það er mér gjörsamlega óskiljanlegt að þessari þjóð takist ekki að leysa þetta vandamál.“
Og ennfremur:
„Þeir sem hafa byggt upp þetta þjóðfélag, þá velmegun sem við njótum í dag, þá innviði þess íslands sem við þekkjum, eru hinir öldruðu,“ segir forsetinn. „Við eigum þakkarskuld við þetta fólk að það geti lifað sómasamlegu lífi og hvort sem það eru aldraðir eða öryrkjar eða fólkið sem þarf að standa hérna í biðröð í kuldanum til að eiga mat fyrir sjálfan sig og börnin er auðvitað merki um það að við sem þjóð höfum ekki staðið okkur.“
Efast einhver um að í samfélagi okkar er að finna misskiptingu, skort, fátækt?
Það er Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra til lítils sóma að agnúast út í forsetann vegna þessara orða – með því að tala um veislur sem eru haldnar á vegum forsetaembættisins. Það er ekki annað en útúrsnúningur.