
Það er hrein blekking að Bandaríkjunum sé ógnað, skrifar Stephen Kinzer í dagblaðið The Boston Globe. Kinzer er fréttamaður sem hefur starfað um víða veröld, rithöfundur og fræðimaður við Brown University.
Grein Kinzers ætti að vera skyldulesning því þarna er andæft lýðskruminu sem einkennir stjórnmálaumræðu og þeirri blekkingu, sem er vissulega handhæg fyrir suma, að við lifum á sérlega ógnarlegum eða óttalegum tímum. Í Bandaríkjunum er það að minnsta kosti ekki raunin, þar virðast ógnirnar sjaldan hafa verið minni, ef marka má Kinzer.
Kinzer fullyrðir beinlínis að Bandaríkin búi við meira öryggi en nokkurt stórveldi í síðari tíma sögu. Þetta helgist ekki síst af landafræði, Bandaríkin séu stór og auðug, sjálfum sér nóg um flesta hluti, stór höf skilji þau frá þeim sem vildu ef til vill gera árásir.
Þessir árásaraðilar séu flestir veikburða. Það sé langt í að Kína geti ógnað Bandaríkjunum að ráði, og það séu heldur engin teikn á lofti um að Kínverjar hafi löngun til þess. Rússland sé veiklað og eigi í miklum efnahagsörðugleikum. Hið sorglega ofbeldi í Miðausturlöndum ógni ekki öryggi Bandaríkjanna nema lítillega, bandarískir borgarar séu ekki í hættu. Það sé líklegra að einhver þeirra verði fyrir eldingu á afmælisdaginn sinn en að viðkomandi farist í hryðjuverkaárás.
En með því að tala sífellt um heim sem er fullur á óvinum sé búið til annarlegt hugarástand sem brenglar sýnina á veröldina. Það geti jafnvel rekið Bandaríkin út í stríð til að svara ógnum sem eru ekki raunverulegar. Vopnaframleiðendur hagnist á þessu ástandi, enda dragi fæstir Bandaríkjamenn í efa viskuna á bak við ógnarlegar fjárhæðir sem er veitt í hermál. Nýjar ógnir eru góður bisness fyrir suma, skrifar Kinzer.
Greinarhöfundur segir frá því að hann hafi nýlega spurt bandarískan sjóliðsforingja að því hverjar væru helstu ógnirnar sem myndu mæta Bandaríkjunum í framtíðinni. Hann segist hafa orðið mjög hissa þegar hermaðurinn nefndi Venesúela. Þetta er ríki í Suður-Ameríku þar sem ríkir stjórnmálakreppa og vofir yfir þjóðargjaldþrot. Sjóher Venesúela á sex freigátur og tvo kafbáta, allt meira og minna óhaffært. Leitin að óvinum getur leitt menn á einkennilega staði, sjálfur Obama forseti hefur talað um Venesúela sem ógn við þjóðaröryggi Bandaríkjanna.
Kinzer vitnar í Freud og Nietzsche um það hversu gagnlegir óvinir geta verið í að binda saman þjóðir, og hvernig ytri ógn getur þjappað mönnum saman. En það er gildra þegar Bandaríkjamenn sjá ógnir út um allt, segir hann. Það er hægt að sækja ákveðna hugarfró í þeirri trú að maður sem umsetinn óvinum. Það þurfi hugarfarsbreytingu til að Bandaríkjamenn skilji hversu öruggir þeir eru í raun – og hugsanlega eru þeir alls ekki til í það.