
Manni er satt að segja hálf ómótt eftir undanfarna daga í íslenskum stjórnmálum,
Margt sem hefur heyrst er svo einkennilega harðbrjósta, frekjulegt en um leið skelfing yfirborðslegt. Ég á þetta, ég má þetta, virðist vera ríkjandi viðhorf. Maður veltir því sannarlega fyrir sér hvers konar stjórnmálamenn við erum að kjósa yfir okkur Íslendingar.
Eitt af því sem hefur verið til umræðu eru kjör lífeyrisþega. Marinó Gunnar Njálsson skrifar merkilegan pistil á Facebook þar sem honum tekst að skoða þennan málaflokk út frá sjónarmiði bæði mannúðar og rökhyggju.
Hvort tveggja finnst manni skorta í stjórnmálunum. Marinó skrifar:
Ég hef fullan skilning á því að það kosti að leiðrétta kjör lífeyrisþega, en í þessari umræðu á fólk að koma með rök fyrir óbreyttu ástandi en ekki réttlætingu á því.
Fólk er á lágmarkslaunum í mesta lagi nokkra mánuði, hámark 6 mánuði. Eftir það færist viðkomandi upp í næsta launaflokk. Síðan heldur einstaklingurinn áfram að hækka í launum allan sinn starfsaldur og með aukinni menntun. Það gera lífeyrisþegar ekki. Þeir eru fastir í „lægri en lægstu laun“ – lífeyristaxtanum allt frá því þeir byrja á lífeyri og þar til þeir detta út af honum, oftast við andlát.
Vilji misvitrir stjórnmálamenn, og þeir hafa margir verið í gegn um tíðina úr öllum fjórflokkunum, nota þau rök að miða skuli lífeyri við lægstu laun, þá verða þeir a.m.k. skýra út hvers vegna ber að halda því viðmiði um aldur og ævi. Hvers vegna eiga lífeyrisþegar ALLTAF að vera með lægri tekjur en 20 ára starfsmaður á kassa í Bónus eða Krónunni? Er ekki sanngirni í því, að lífeyrisþeginn búi við sömu „taxtabreytingar“ og sá 20 ára á kassanum, sem hækkar um launaflokk eftir 6 mánuði, um annan eftir 1 ár, enn annan eftir 2 ár og þann fjórða eftir 5 ár? Það er nefnilega þannig, að ekki er ætlast til að fólk sé fast á lægstu launum (nema náttúrulega hjá óheiðarlegum launagreiðendum) í lengur en fyrstu 6 mánuðina. Ætti þá háskólamenntaði lífeyrisþeginn að miðast við lægstu laun háskólamenntaðs starfsfólks?
Eðlilegt þykir að launþegar geti hert ólina í 6 mánuði, en hækki síðan smátt og smátt með aukinni reynslu, hærri starfsaldri og betri menntun. Lífeyrisþeginn nýtur einskis af þessu, nema viðkomandi hafi áunnið sér þess meiri réttindi hjá lífeyrissjóðnum sínum og nógu mikil til að vera hærri en svo að allar skerðingar almannatryggingalaganna (sem eru margar og yfirleitt frekar ósvífnar) nái að kippa fótunum fjárhagslega undan lífeyrisþegum. Stórir hópar lífeyrisþega eru hlekkjaðir á höndum og fótum af almannatryggingakerfi, sem snýst um að spara útgjöld, en ekki mæta framfærsluþörf lífeyrisþegans. Slíkt kerfi býr til fátækt, óöryggi og örvæntingu. Það sviptir fólk sjálfsvirðingunni, þegar það getur ekki séð börnum sínum farboða eða gert vel við barnabörnin á tyllidögum. Slíkt kerfi er hreint út sagt andstyggilegt og ómanneskjulegt.