
Ólafi Hannibalssyni kynntist ég fyrst þegar ég var ungur blaðamaður á Helgarpóstinum. Ólafur kom þangað til starfa, það hefur líklega verið árið 1986, við vorum þar báðir ég og Gunnar Smári Egilsson. Okkur fannst maðurinn býsna furðulegur þar sem hann sat inni á kontór og hamraði á lyklaborð á nærbol.
Við vorum forvitnir um hann, fórum út saman að borða og drekka – en við Smári drukkum kannski ekki síst í okkur sögurnar sem Ólafur sagði úr pólitíkinni og blaðamennskunni á árunum áður en hann fór í útlegðina í Selárdal. Það var kostulegt að hlusta á hann, hann var algjör hafsjór, en maður fann á honum að hann hafði ekki verið í margmenni langa hríð.
Ólafur hafði þá dvalið nokkuð mörg ár í Selárdalnum og stundað búskap. Þeir voru einungis þrír íbúar í dalnum, hann, annar Ólafur og Gísli á Uppsölum. Seinna heyrði ég Ólaf segja að af þeim þremur hefði Gísli verið minnst skrítinn.
Með okkur Ólafi hélst góður kunningsskapur síðan, einkum á árunum þegar ég var með Silfur Egils. Þá var Ólafur kærkominn gestur í þættinum, enda var hann alltaf með sína eigin sýn á málin og hafði einstakt lag á að skilja hlutina dýpri skilningi en flestir aðrir. Ólafur bjó náttúrlega að því að hafa fylgst með pólitík frá blautu barnsbeini, verandi sonur sjálfs Hannibals. En þetta var kærkomið í þætti þar sem hlutirnir gátu stundum leyst upp í innihaldslausar klisjur og karp.
Nú er Ólafur fallinn frá, 79 ára að aldri. Ég mat hann ávallt mikils – og þakka fyrir kynni góð.