

Á morgun er þjóðaratkvæðagreiðslan í Grikklandi. Augu heimsins mæna í átt þessarar þjóðar sem telur ekki nema ellefu milljónir, er í raun smáþjóð.
Hér á eyjunni þar sem ég dvel er kosið í barnaskólanum sem stendur hér út við klettabrún. Skólar sem líta svona út, í dálítið klassískum stíl, eru í mörgum smábæjum og þorpum í Grikklandi – þeir voru byggðir fyrir fé auðmanna sem töldust vera í hópi mannvina, eins og það var kallað í eina tíð, philantropos er orðið sem er komið úr grísku. Eru þeir kannski orðnir fágætari í seinni tíð?
Það er svo undarlegt að mjög margir Grikkir munu ekki geta notað atkvæðisrétt sinn. Utankjörstaðaatkvæði þekkjast ekki, fólk verður beinlínis að fara heim til sín til að kjósa. En margt fólk er fjarri heimilum sínum, ekki síst allir þeir sem vinna í ferðmannaiðnaði út um allar eyjar. Það fer ekki í heimabyggð til að kjósa – sumir segja að þetta muni fækka nei-atkvæðunum, því þar er ekki síst ungt fólk sem ekki nýtir atkvæði sín.
Grikkir sem maður talar við eru margir alveg ringlaðir, vita ekki hvort þeir eigi að segja nei eða já. Það er líka erfitt að sjá hvað felst í svörunum. Merkel og Juncker láta eins og nei-ið þýði útgöngu úr evrunni, Pólverjinn Tusk segir að svo sé ekki. Jacques Delors, einn helsti hugmyndafræðingur ESB í seinni tíð, leggur til björgunaráætlun í þremur liðum og segir að Grikklandi verði að bjarga, ekki bara vegna Grikkja sjálfra, heldur líka vegna Evrópuhugsjónarinnar.
Á það er einnig bent að engin útgönguleið sé úr evrunni – það er hvergi skráð hvernig slík útganga eigi að fara fram. Þannig að ef Grikkir verða hraktir þaðan út er það í raun fjarska ólýðræðislegt. Erfitt er líka að verjast þeirri tilhugsun að Þjóðverjar – sem ráða öllu í Evrópusambandinu núorðið – vilji einfaldlega losna við Alexis Tsipras og flokk hans Syriza.
Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn lætur nú í ljósi þá skoðun að Grikkir geti ekki borgað skuldir sínar, þeir þurfi bæði afskriftir og skuldafrí í einhvern tíma. Þetta hefði auðvitað mátt koma fyrr frá sjóðnum. Jonathan Freedman skrifar í Guardian og bendir á að evran henti Þjóðverjum og sterkum útflutningsgreinum þeirra vel, en annars staðar sé hin heiftarlega aðhalds- og niðurskurðarstefna þeirra að valda miklum skaða – hugtakið sem hann notar er decifit fetishism. Heilu þjóðirnar verða eins og beiningamenn í evrusamstarfinu, sjúklingnum er látið blæða og svo þegar hann er alveg að geispa golunni, þá er tekið meira blóð.