

Einhvern veginn virkar viljayfirlýsing um byggingu álvers við Hafursstaði á Skaga eins og rugl. Hvers vegna er verið að bjóða upp í þennan dans? Sveitarstjórnarmenn mæta prúðbúnir í ráðherrabústaðinn, skrifa undir eitthvert plagg, ásamt einhverjum mönnum fá Kína og sjálfum forsætisráðherra.
Rifjum aðeins upp hvernig þetta var með álverið í Helguvík. Þar var skrifað undir viljayfirlýsingu og svo var farið í gang með alls kyns framkvæmdir. Það var byggð heil höfn. Þetta hefur haft skelfileg áhrif á fjáhagsstöðu Reykjanesbæjar.
Álverið kom nefnilega ekki. Því hafði ekki verið tryggð orka – og það gat ekki eða vildi ekki greiða orkuverð sem var ásættanlegt fyrir seljendurna, semsagt Íslendinga.
Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms mátti sitja undir stöðugum skömmum fyrir að draga lappirnar við byggingu þessarar stóriðju, frá sveitarstjórnarmönnum, stjórnarandstöðunni og verkalýðshreyfingunni. En svo tók ný ríkisstjórn við og þá hafði ekkert breyst. Það var ekki grundvöllur fyrir byggingu álversins.
Maður veltir fyrir sér hvort eitthvað svipað uppi á teningnum. Landsvirkjun þegir þunnu hljóði – orkan er ekki til staðar, og svo á seinna að stækka álverið í 220 þúsund tonn – Ómar Ragnarsson hefur kalla það túrbínutrix að leggja á ráðin um lítið álver en stækka svo ört.
Svo er athyglisvert að þarna ná saman tveir áhugaverðir aðilar, kínverskt ríkisfyrirtæki og Kaupfélag Skagfirðinga, en eins og Ómar Ragnarsson bendir á er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í miðið.
