
InDefence eru einhver merkilegustu grasrótarsamtök sem hafa starfað á Íslandi – og þótt víðar væri leitað.
Barátta InDefence hefur fyrst og fremst verið gegn ofurvaldi fjármálaaflanna – sem samfélög nútímans undirgangast af furðulegu rænuleysi.
Samtökin beittu sér í Icesave-málinu og svo aftur gegn þjónkun við kröfuhafa föllnu bankanna.
En það er merkilegt með þessi samtök að vinstri hreyfingin á Íslandi viðurkennir þau varla. Samt ættu þau auðvitað að hafa yfir sér hetjuljóma í augum vinstrisins. Víða erlendis er vitnað í þessa baráttu, til dæmis í Grikklandi, en hér heima heyrist oft að það sé tómur misskilningur.
Líklega á þetta tvær skýringar, InDefence barðist gegn ákvörðunum sem teknar voru af ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms – meintri vinstri stjórn þeirra – og samtökin þvældust fyrir draumum Samfylkingarinnar um Evrópusambandsaðild. Fátt fór verr með Evrópusambandsumsóknina en einmitt baráttan gegn Icesave.
Nú horfum við á hvernig fjármálavaldið ræður lögum og lofum í Evrópu. Meira að segja Alþjóða gjaldeyrissjóðnum er farið að blöskra. Fjöldi virtra hagfræðinga stígur fram og segir að svona geti þetta ekki gengið. Við þetta verður maður þakklátur fyrir baráttu InDefence á Íslandi. Líklega þyrftu fleiri lönd svona samtök til að verjast fjármálavaldinu.