Þingmenn Bjartrar framtíðar munu kjósa eftir sinni samvisku eins og þeim ber samkvæmt stjórnarskránni, en það sem flokkurinn lagði áherslu á fyrir kosningar voru ekki loforð, heldur áherslur sem þingmenn hans vilja berjast fyrir.
Þetta sagði Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar og heilbrigðisráðherra á Alþingi í dag, en Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, innti hann þá eftir kosningaloforðum flokksins og hvort þingmenn hans myndu ekki styðja þau í atkvæðagreiðslum á þinginu.
„Þingmenn Bjartrar framtíðar, eins og aðrir þingmenn á þingi, eru bundnir sannfæringu sinni þegar kemur að stuðningi mála eða synjun. Það er svo einfalt. Þau áherslumál, eins og ég orðaði það, eða kosningaloforð eins og margir myndu kalla það, sem okkar flokkur lagði fram í kosningum eru áhersluatriði flokksins og þau atriði sem við komum með inn í starfið á Alþingi,“ sagði Óttarr.
Logi sagði svör Óttars þunn og jaðra við útúrsnúning. Hann ítrekaði því spurningu sína: „Eru þingmenn Bjartrar framtíðar bundnir á einhvern hátt í stjórnarsamstarfinu til að greiða atkvæði um mál sem þeir lofuðu fyrir kosningar, þvert á það sem þeir lofuðu, eða á einhverjum ákveðnum tímapunkti kjörtímabilsins? Þetta skiptir máli. Nú heita loforð allt í einu áform,“ sagði hann.
Óttarr svaraði:
„Svo ég ítreki það erum við auðvitað í ríkisstjórnarsamstarfi þar sem hefur verið samið um áherslu í stjórnarsáttmála. Hann liggur fyrir og er opinber og við stöndum við hann. Hann er ekki allur úr kosningaloforðalista mínum heldur er hann sameiginlegar áherslur flokkanna sem hafa ákveðið að vinna saman. Það fer mjög mikið eftir því hvaða mál eru undir hver afstaðan verður og hvenær á kjörtímabilinu það verður.“