Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur fékk í dag fálkaorðuna frá Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands. Lars Løkke greinir frá þessu á Fésbókarsíðu sinni. Guðni er í opinberri heimsókn í Danmörku ásamt eiginkonu sinni Elizu, snæddi Guðni hádegismat með forsætisráðherranum en í kvöld munu forsetahjónin snæða kvöldverð með Margréti Þórhildi Danadrottingu í Amalíuhöll.
Ég fékk fálkaorðuna í dag. Og já, ég hef heyrt að orður eru hengdar á bjána. 🙂 Ég tek þessu sem fallegu tákni um náið samband Íslands og Danmerkur, ég hlakka til að setja hana á mig í kvöld,
sagði Lars Løkke á Fésbók, en hann verður viðstaddur hátíðarkvöldverðinn með Guðna, Elizu og Danadrottingu í kvöld.
Guðni afhenti í dag, við hátíðlega athöfn í Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn, 700 eintök af nýrri heildarútgáfu Íslendingasagna í danskri þýðingu. Mette Bock, menningarmálaráðherra Dana, tók við gjöfinni fyrir hönd Dana. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra var einnig viðstaddur athöfnina ásamt opinberri sendinefnd.
Ari Brynjólfsson – ari@pressan.is