Ummæli Loga Einarssonar formanns Samfylkingarinnar um að flokkurinn væri alvarlega að skoða það að leggja fram þingsályktunartillögu á komandi þingi um að fram skuli fara þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna Íslands um aðild að Evrópusambandinu, hefur fallið í grýttan jarðveg víða á samfélagsmiðlum í dag.
DV hafði eftir Loga að hugsanlegt sé að tillaga um þjóðaratkvæðagreiðsluna verði til að knýja þingmenn stjórnarflokkanna til að gefa upp afstöðu sína í málinu:
Þetta mál verður samt tekið á dagskrá og örugglega með öðrum hætti en um er rætt í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þetta er mál sem allir flokkar ættu auðvitað að vera sammála um. Það voru allir flokkar búnir að lofa því meira og minna fyrir kosningar að þjóðin ætti að fá að ráða þessu. Það er langheiðarlegast,
sagði Logi. Hann sagði þó við Viðskiptablaðið í morgun að það sé full djúpt í árina tekið að segja að flokkurinn boði tillögu um ESB-viðræður en það verði skoðað hvernig málið kemst á dagskrá.
Samfylkingin hefur komið verst út úr ESB-málinu
Páll Vilhjálmsson blaðamaður og kennari segir á vefsíðu sinni að Samfylkingin sé með þessu að svíkja bakland sitt á landsbyggðinni þar sem andstaðan við aðild Íslands að ESB sé sterkust:
Eins og alþjóð veit er Samfylkingin giska snjöll að svíkja umbjóðendur sína. Síðustu tíðindi segja okkur að flokkurinn hefur engu gleymt og ekkert lært,
sagði Páll. Ómar Ragnarsson fjölmiðlamaður segir hins vegar í athugasemd að kjósendur, líka á landsbyggðinni, hafi vitað fullvel með hverju þeir hafi verið að greiða atkvæði með í síðustu kosningum.
Björn Bjarnason þáttastjórnandi og fyrrverandi þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins segir í vefdagbók sinni að slík tillaga sé einmitt í anda Samfylkingarinnar:
Samfylkingin hefur allt frá upphafi rekið ESB-málið öðrum þræði til að skapa vandræði innan annarra stjórnmálaflokka vegna þess. Að flytja tillögu í þessa veru nú yrði einmitt gert í þeim anda,
segir Björn:
Þríeykið í Samfylkingunni ætti að minnast þess að flokkur þeirra hefur farið verst vegna ESB-málsins. Sjálfseyðingarhvötin er líklega takmarkalaus innan flokksins.