„Þetta samræmist ekki hlutverki ríkisvaldsins að greiða út skaðabætur vegna ytri aðstæðna eins og verðbólgu eins og var ákveðið að gera í þessari aðgerð. Það kemur fram til dæmis að 52 af þessum 72 milljörðum sem dreifðust þarna á hluta Íslendinga sem voru með verðtryggð húsnæðislán, fóru á efnameiri hluta þjóðarinnar.“
Þetta sagði Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Þar ræddi hann um skýrslu um þjóðhagsleg áhrif leiðréttingarinnar ásamt Lilju Alfreðsdóttur varaformanni Framsóknarflokksins. Þórður segir niðurstöðu skýrslunnar hafa legið fyrir þar sem þeir sem eigi meiri eignir séu líklegri til að skulda meira:
Þarna sést bara svart á hvítu að þessi aðgerð sem var valið að fara felur í sér millifærslu úr ríkissjóð til tekjuhæstu og eignamestu hópanna í samfélaginu þrátt fyrir að þessi forsendubrestur sem lagt var upp með að leiðrétta var, eins og frægt er orðið, ekki hluti af frumvarpinu á endanum. Vegna þess að hækkun á fasteignaverði og ekki síst kaupmætti, hafði leiðrétt stöðu þessa hóps sem fékk mestu hækkunina áður en til þessara útgreiðslna kom.
Þórður segir óréttlæti hafa falist í aðgerðinni, hefur hann tjáð sig um málið í skrifum á Kjarnanum, nú síðast í leiðara sem ber heitið Leiðréttingin er þjóðarskömm.
Saknar þess að Kjarninn fjalli um 110% leiðina
Lilja segir að áður en farið sé að meta aðgerðina sem slíka þurfi að hverfa aftur til ársins 2008 , sérstaklega tímabilið 2008 til 2010:
„Hvað er að gerast í íslensku samfélagi á þessu tímabili? Jú skuldir heimilanna jukust alveg gríðarlega, við erum að tala um fólk sem var með gengislán, fólk sem var með verðtryggðar skuldir og skuldastaða heimilanna var orðin í kringum 126% af landsframleiðslu. Ein versta skuldastaða á Norðurlöndum og jafnvel í Evrópu,“
sagði Lilja. Lán upp á 150 milljarða voru leiðrétt í gengum dómskerfið og svo fór ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur í 110% leiðina upp á 66 milljarða:
Við erum að tala um að það er verið að leiðrétta skuldir um 200 milljarða á þessu tímabili. Það sem gerist svo er að það er ákveðinn hópur sem situr eftir, með verðtryggðu lánin, og það var almenn krafa í samfélaginu að þessar skulir yrðu leiðréttar. Þess vegna var farið í leiðréttinguna, til þess að leiðrétta þennan forsendubrest og það áfall sem fólk hafði orðið fyrir.
Lilja segist sakna þess hjá Kjarnanum að aldrei sé minnst á 110% leiðina þar sem var enn meiri flutningur á fjármagni til þeirra efnamestu:
Bara eitt dæmi um tölulegar staðreyndir að er að meðal lánsleiðréttingin í leiðréttingunni er um 1,2 milljón á heimili, þá er hún sjö milljónir í 110% leiðinni,
segir Lilja. Þórður segir það hins vegar rangt hjá Lilju, hann hafi fjallað um 110% leiðina bæði í Fréttablaðinu og á Kjarnanum. Lilja tekur undir með Þórði um að skýrslan hafi þurft að vera umfangsmeiri, en Lilja telur að betur hefði átt að fara yfir tímabilið 2008 til 2010 og það þurfi að hafa í huga að leiðréttingin var ekki tekjujöfnunaraðgerð:
75% af fjárhæðinni í leiðréttingunni fór til einstaklinga með minna en sjö milljónir í árstekjur. Þegar við skoðum þetta þá fær lægsta tekjutíundin um milljón í leiðréttingu en hæsta tekjutíundið fær 1,6 milljón. Auðvitað þegar tölurnar eru teknar svona saman eins og Þórður er að gera þá virkar þetta eins og hæsta tekjustigið fái mun meira en við þurfum líka að skoða þetta hlutfallslega.
Ari Brynjólfsson – ari@pressan.is